Geðheilbrigðisþjónusta fyrir börnin okkar í heimabyggð!

Rannsóknamiðstöðin Rannsókn og greining hefur frá árinu 1992 framkvæmt umfangsmiklar þýðiskannanir og lagt fyrir börn á unglingastigi grunnskóla á Íslandi. Rannsóknin ber heitið Ungt fólk. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar frá árinu 2020 hefur hlutfall þeirra ungmenna sem telja andlega heilsu sína slæma aukist verulega frá fyrri árum. Aukning hefur verið á hlutfalli þeirra barna sem finna fyrir kvíða og/eða þunglyndi. Salvör Nordal umboðmaður barna bendir á í grein sinni „Vanlíðan eykst og biðlistar lengjast“ að geðheilbrigði barna sé sérstakt áhyggjuefni og að það þurfi að bregðast við. Stytta þurfi biðlista hjá læknum og sálfræðingum. Hefur Embætti umboðsmanns barna einnig fylgt eftir líðan grunnskólabarna á Íslandi á Covid tíma og var áberandi munur á svörum barna á milli ára er varða andlega vanlíðan. Í svörum barnanna kom fram að algengt var að þau fyndu fyrir vanlíðan, streitu, kvíða, þunglyndi og einmanaleika. Report Card 16 er skýrsla sem Unicef framkvæmdi árið 2020, þar sem 41 af ríkustu löndum á meðal OECD og Evrópusambandsins tóku þátt og sýna niðurstöður hennar að sjáflsvíg ungmenna í aldurshópunum 15-19 ára séu hæst hér á landi miðað við samanburðarlöndin.  

Vandinn getur verið flókinn og marþættur. En eitt vitum við – að heimurinn er hraður, harður og óvæginn á köflum. En hann er líka góður, mjúkur og fallegur. Við eigum það til að týnast í því ljóta og þá þurfum við leiðavísir út. Hann hafa ekki allir í vasanum, en hann er til og það er hægt að deila honum.

Áreiti og álag í samfélaginu hefur aukist töluvert seinustu ár. Álag og óraunhæfar kröfur úr öllum áttum innan og utan skóla, einnig inni á heimilunum í gegnum snjalltækin. Þetta eykur á vanlíðan og skapar flækjur í hugum ungmenna. Börnin okkar týnast í kerfinu og erfitt er að finna útgönguleið, sér í lagi ef úrræðin eru af skornum skammti og/eða krefjandu fyrir fjölskyldur að þiggja þau. Fjölskyldur eru ráðþrota og innistæðulausar þar sem þeirra orka og tími fer í að leita uppi úrræði sem eru til en ekki í boði í þeirra heimbyggð. Við þurfum að skoða aðstæður frá öllum sjónarhornum; barnsins, kennarans, fjölskyldu og samnemenda. Það á ekkert barn að þurfa að klóra sig í gegnum grunnskólagöngu í bullandi vanlíðan.

Kennarar tala um álagið sem fylgir þeirra starfi, minni tími fer í kennslu því álagið við andlegan stuðning til nemenda hefur aukist. Kennarar tala um að þeir hafi hreinlega ekki menntun til að takast á við sum tilfellin sem upp koma á skólatíma. Kennarar og foreldrar eru alltaf öll að vilja gerð til að takast á við þessi verkefni en skortir verkfærin til þess. Fátt er verra en ráðþrota foreldri sem horfir á barnið sitt þjást.

Samhliða því að andleg heilsa ungmenna versni, eykst eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu. Þjónustuna er helst að finna á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi biðlistum og flækjustigum. Við eigum að veita þessa þjónustu í heimabyggð.  Ef sú þjónusta sem höfuðborgin veitir er líka í boði á landsbyggðinni, minnkar álagið – það er gefið. Við getum ráðið fagfólkið og þjónustað börnin okkar og ungmenni í heimabyggð.  

Samkvæmt barnamálaráðherra, Ásmundi Daða Einarsyni sem lagði í mikla rannsókna- og greininga vinnu áður en hann lagði til farsældarlögin eru það forvarnir, forvarnir og aftur forvarnir. Byrgja brunninn áður en barnið fellur í hann. Í frumvarapinu kemur fram hugtakið „snemmtækur stuðningur“, sem þýðir að bregðast eigi við og veita börnum og þeirra fjölskyldum aðstoð um leið og þörfin fyrir honum kemur.  Flott, við erum með lausnina. Gerum þetta, leggjum okkur fram og gerum þetta vel.

Byrjum á að ráða fagaðila inn í skólann sem hefur tilskylda menntun og þekkingu til að takast á við andleg veikindi barna og ungmenna. Fagaðila sem hefur fasta viðveru og bregst við ef um andlega vanlíðan, hegðunarvanda og annan flókinn vanda sem börnunum tengjast. Einnig hafa börnin aðgang að fagaðila sem þau geta átt samtal við á sínum eigin forsendum, þegar þau treysta sér til. Er þessi fagaðili einnig með fræðslu og stuðning við börn, foreldra og kennara.

Geðheilsa barna og ungmenna getur því miður þróast í alvarlegri og flóknari geðheilbrigðismál og upp komið sú staða að ungmenni þurfi sólahringsvistun vegna gríðalegrar vanlíðan, þá þurfa þau – eins og staðan er núna, að fá það tiltekna úrræði á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi kostnaði og róti fyrir fjölskyldur. Það er þjónusta sem við getum og eigum að veita hér á Vestfjörðum. Við erum með lausnina – framkvæmum hana!

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir

Höfundur er ráðgjafi VIRK á Vestfjörðum og

Oddviti K-lista MMM í Bolungarvík.

DEILA