Fjórðungsþing: vill virkja í Vatnsfirði og Steingrímsfirði

Frá Fjórðungsþingi á Ísafirði vorið 2022. Mynd: aðsend.

Fjórðungsþing Vestfirðinga sem haldið var fyrr í apríl hvetur til aukinnar framleiðslu raforku á Vestfjörðum til að tryggja orkuskipti og samkeppnishæfni svæðsins til búsetu og atvinnustarfsemi. Þingið væntir þess að tillögum starfshóps um raforkumál verði hrint í framkvæmd.

Starfshópurinn leggur fram tvær tillögur um virkjun á Vestfjörðum.

Kvíslartunguvirkjun

Sú fyrri er að ráðist verði í vikjun í Steingrímsfirði í Strandasýslu. Orkubú Vestfjarða er með rannsóknarleyfi fyrir 9,7 MW virkjun sem nýtir vatn sem rennur um Þjóðbrókargil í Steingrímsfirði í Strandabyggð. Vinnuheiti virkjunarinnar
er Kvíslartunguvirkjun. Virkjunin mundi hæglega geta haldið uppi raforkukerfinu í Steingrímsfirði við straumrof Hólmavíkurlínu.

Vatnsfjarðarvirkjun

Hinn virkjunarkosturinn er Vatnsfjarðarvirkjun í Barðatsrandarsýslu. Þar er lagt til að umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra skoði hvort fýsilegt sé að lyfta friðlýsingarskilmálum Friðlandsins í Vatnsfirði svo hægt sé að taka Vatnsfjarðarvirkjun til umfjöllunar í rammaáætlun 4, eða öðru því regluverki sem Alþingi kann að ákveða varðandi mögulega virkjanakosti.

Vatnsfjarðarvirkjun gæti verið með uppsett afl á bilinu 20 til 30 MW og er í innan við 20 km fjarlægð frá Mjólkárveitu og Mjólkárvirkjun. Uppsett afl þessara tveggja virkjana, Mjólkárvirkjunar og Vatnsfjarðarvirkjunar, gæti þá verið á bilinu 30 til 40 MW. Samkvæmt forathugun Orkubús Vestfjarða er um hagkvæman virkjunarkost að ræða, en íslenska ríkið er landeigandi og jafnframt eigandi vatnsréttindanna í Vatnsfirði. Vegalengd tengingar virkjunarinnar við meginflutningskerfið í Mjólká er innan við 20 km og liggur um land í eigu ríkisins og Orkubús Vestfjarða.

Fjórðungsþingið leggur ríka áherslu á aukna raforkuframleiðslu á Vestfjörðum sérstaklega þar sem flutningkerfið er jafn ótryggt og raun ber vitni um.

DEILA