Fjórðungsþing Vestfirðinga vill meira samráð við sveitarstjórnir og íbúa um væntanlegt svæðisskipulag

Frá Fjórðungsþingi á Ísafirði vorið 2022. Mynd: aðsend.

Á Fjórðungsþingi í síðustu viku var samþykkt tillaga Jóns Páls Hreinssonar bæjarstjóra í Bolungavík sem hann lagði fram fyrir hönd bæjastjórnar þar sem fjórðungsþingið „skorar á svæðisráð um gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörum að hafa víðtækt samráð við sveitarstjórnir og íbúa á Vestfjörðum um skipulagið áður en það verður endanlega afgreitt. Þannig verði leitast við að tryggja sem víðtækasta sátt um skipulagið í samfélögum á Vestfjörðum.“

Í greinargerð með tillögunni segir að í „strandsvæðisskipulagi fyrir Vestfirði er að finna grundvallarskilgreiningu á fjölbreyttri nýtingu haf- og strandsvæða á Vestfjörðum og jafnframt hvernig skuli viðhaldið mikilvægum auðlindum
hafsvæða á skipulagssvæðinu. Í svo veigamikilli vinnu sem strandsvæðisskipulagið er, þá er nauðsynlegt að það sé unnið í sátt við sveitarstjórnir á skipulagssvæðinu og skipulagið endurspegli þannig vilja heimamanna.“

Í strandasvæðaskipulaginu verður ákveðin nýting einstakra svæða undan ströndum Vestfjarða, svo sem hvar gera eigi ráð fyrir fiskeldi eða hvar eigi að banna það og einblína á ferðaþjónustu. Það er svæðisráð um strandasvæðaskipulag sem gerir tillögu um nýtinguna og sendir hana til umhverfisráðherra til afgreiðslu. Með samþykktinni á fjórungsþinginu eru sveitarstjórnirnar að kalla eftir nánari samstarfi við svæðisráðið áður en endanleg tillaga er afgreidd þaðan.

Í umræðu um tillöguna kom fram hjá Baldri Smára Einarssyni, bæjarfulltrúa í Bolungavík að gögn m.a. uppdrættir væru ekki aðgengileg og skoraði hann á svæðisráðið að birta gögnin til að samtalið geti átt sér stað og þannig geti sveitarstjórnarmenn komið að skoðun sinni á málefninu.

Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri ítrekaði að það vanti í ferlið víðtækara samráð við sveitarstjórnirnar á svæðinu öllu.

Lilja Magnúsdóttir, Tálknafirði sem sæti á í svæðisráði sagði að tillaga sem hefði komið fram að hálfu svæðisráðs hefði verið vinnutillaga og óskað hefði verið eftir viðbrögðum sveitarstjórna við þeim á fundum í mars s.l.. Svæðisráð ætti eftir að koma saman að nýju og móta tillögu að strandsvæðaskipulagi sem yrði auglýst og óskað umsagna auk þess að leggja fram önnur gögn. Á auglýsingartíma hafa allir aðilar möguleika á að koma athugasemdum til skila og
tækifæri til að tjá sig. Sagði Lilja að endanleg tillaga að svæðisskipulagi yrði mótuð að afloknum umsagnartíma.

DEILA