Breytt rekstrarleyfi fyrir laxeldi í Patreksfirði og Tálknafirði

Matvælastofnun hefur gefið út tillögu að breyttu rekstrarleyfi fyrir laxeldi í Patreksfirði og í Tálknafirði. Breytingin lýtur að eldissvæðum og hvíldartíma þeirra.

Annars vegar er breytt leyfi frá 2019 til Arctic Sea Farm fyrir 6.800 tonna framleiðslu. Breyting á rekstrarleyfinu heimilar stækkun á eldissvæðinu Kvígindisdal í Patreksfirði. Eldissvæðið Hvannadalur í  Tálknafirði verður óbreytt. Hvíldartími eldissvæða verður eftir breytingu 90 dagar í stað 180 daga áður. Gildistími rekstrarleyfisins helst óbreyttur.

Eftir breytingar verður Arctic Sea Farm áfram með eitt eldissvæði í Patreksfirði og eitt eldissvæði í Tálknafirði.

Hins vegar er lagt til að breyta leyfi Arnarlax frá 2019 fyrir 10.700 tonna framleiðslu. Breyting á rekstrarleyfinu heimilar flutning á eldissvæðinu Hlaðseyri á nýtt eldissvæði Vatneyri. Jafnframt er eldissvæðið Eyri stækkað. Eldissvæðið Sandoddi í Patreksfirði og Laugardalur í Tálknafirði verða óbreytt. Hvíldartími eldissvæða verður eftir breytingu að lágmarki 90 dagar í stað 180 daga áður. Gildistími rekstrarleyfisins helst óbreyttur.

Eftir breytingar verður Arnarlax áfram með þrjú eldissvæði í Patreksfirði og eitt eldissvæði í Tálknafirði.

Unnt er að gera athugasemdir við tillöguna. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 18. maí 2022.

DEILA