Atvinnuuppbygging í sátt við náttúruna

Það hefur í nokkurn tíma verið í gerjun hugmynd um þjóðgarð á Vestfjörðum. Stutta sagan er svona: Hugmyndin kom, það var unnið með hana, fólk skiptist upp í fylkingar með og á móti og síðan hefur málið legið niðri. Til að svona verkefni nái flugi þarf að fara fram upplýst umræða. Við hjá Í listanum viljum leggja þessu máli lið.

Það erum við íbúarnir, sem höfum áhrif á þær reglur sem settar eru fram í reglugerð sem um væntanlegan þjóðgarð gilda. Þar minnum við á íbúalýðræði og hvatningu til virks samtals á milli allra í sveitarfélaginu. 

Mótrök gegn stofnun þjóðgarðs hafa gjarnan verið að með stofnun hans séum við að þrengja að möguleikum svæðisins m.a. til raforkuframleiðslu. Virkjanir geta vel átt heima í þjóðgörðum. Þetta getur vel farið saman.

Þá er bent á að stofnun þjóðgarðs hafi áhrif á virkjanaáform í Vatnsfirði (sem er reyndar í öðru sveitarfélagi). Það er ekki rétt því í Vatnsfirði gilda lög um friðlýsingar sem ganga lengra en lög um þjóðgarða. Vatnsfjörður var gerður að friðlandi árið 1975. Tilgangur friðlýsingar er að vernda náttúru á þann hátt að fólki gefist kostur á að njóta hennar. Friðlýsing í Vatnsfirði hefur ekkert með stofnun þjóðgarðs og reglugerðar hans að gera, friðlandið í Vatnsfirði er sér mál.

Við í Í-listanum sjáum fyrir okkur að þjóðgarðsmiðstöð rísi á Þingeyri, því þar eru innviðir fyrir sem við viljum sjá eflast. Við erum að fara inn í uppbyggingartímabil í sveitarfélaginu. Vestfirðir hafa verið valdir af Lonely Planet sem einn besti staður í heimi til að heimsækja árið 2022, sem þýðir aukna athygli á svæðið. Við megum eiga von á mikilli aukningu ferðamanna og þá þurfum við að vera búin að marka okkur stefnu og hafa skýra sýn á hvernig við viljum að ferðaþjónusta byggist upp á svæðinu. Samfara því að Í-listinn ætli að standa vörð um opinber störf í sveitarfélaginu, þá ætlar Í-listinn að leita leiða með stjórnvöldum til að fjölga þeim. Það verða t.d. til ný opinber störf í tengslum við þjóðgarð á Vestfjörðum. 

Með eflingu ferðaþjónustunnar verða til mörg afleidd störf og tækifæri fyrir þjónustufyrirtæki á svæðinu til að vaxa og dafna. Til að mynda eru víða kjöraðstæður til matvælaframleiðslu í sveitarfélaginu og við viljum að sjálfbær matvælaframleiðsla með gæða afurðum verði áfram undirstaða búsetu til sjávar og sveita. Þá er mikilvægt að fullvinnsla afurða verði í auknum mæli í sveitarfélaginu en samlegð með ferðaþjónustu er þarna gríðarleg.  

Þetta eru tækifæri sem við skulum sem samfélag nýta.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

4. sæti Í-listans

DEILA