Af hverju Framsókn

Ég er Vestfirðingur í húð og hár og vil hvergi annars staðar búa. Innan um fjöllin, firðina, sjóinn, náttúruna og fólkið sem deilir sömu ástríðu og ég fyrir samfélaginu hér fyrir vestan. Fólkið sem er tilbúið að leggja ýmislegt á sig til að búa hér fjarri höfuðborgarsvæðinu með þeim kostum og ókostum sem því fylgir. Ég vil berjast fyrir lífinu út á landi fyrir mig og börnin mín og komandi kynslóðir. Það er oft talað um vestfirsku þrjóskuna og tengi ég vel við það.

Það sem heillar mig mest við pólitík er að geta haft áhrif á samfélag mitt til góðs. Margir sem þekkja til hugsa sem svo að ég hafi fæðst inn í Framsókn. Að einhverju leyti er það rétt en ég væri hins vegar ekki að starfa fyrir flokkinn ef að ég tengdi ekki sterkt við stefnu hans um samvinnu og frjálslyndi, hófsemi og heiðarleika. Framsókn er fyrst og fremst fjölskylduflokkur og markmið hans er að standa vörð um gildi og hag allra fjölskyldna í landinu.

Málefnavinnan fyrir þessar kosningar er margt um ólík málefnavinnu fyrir síðustu kosningar. Ýmislegt hefur áunnist, sumt ekki, en áherslurnar núna snúast meira um að styrkja innviði til að halda í þá miklu uppbyggingu sem hefur verið síðastliðin misseri og er framundan. Mikil uppbygging hefur verið í atvinnumálum og sér ekki fyrir endann á því. Fiskeldið kemur inn af krafti sem ný atvinnugrein en einnig nýsköpun með fyrirtæki eins og Kerecis sem og smærri nýsköpunarfyrirtækjum. Tækifærin í ferðaþjónustu hafa aukist enn frekar eftir að Vestfirðir urðu efstir á lista Lonely Planet sem besti áfangastaður í heimi árið 2022.  Hér hefur ekki verið byggt meira í langan tíma. Fasteignaverð hefur margfaldast á síðastliðnum fimm árum og loksins sér fólk hag sinn í því að byggja. Það vantar fleiri lóðir og húsnæði í öllum byggðarkjörnum. Á Ísafirði er fjölgun barna á leikskólum og grunnskólum og huga þarf að stækkun húsnæðis ef áfram heldur sem horfir. Það eru gríðarlega bjartir tímar framundan í Ísafjarðarbæ en halda þarf rétt á spöðunum til að nýta þetta vaxtartímabil sem framundan er.

Til að standa undir þessari uppbyggingu og gera samfélagið okkar enn eftirsóknarverðara að búa í er ýmislegt sem að við í Framsókn viljum leggja áherslu á fyrir næstkomandi kosningar. Við viljum fara í átak í skipulagsmálum og fjölga lóðum og byggingarsvæðum í öllum byggðarkjörnum. Við viljum efla miðbæinn og þann bæjarbrag sem er einstakur og tengja bæinn betur saman með göngu og hjólaleiðum. Við viljum bæta nærumhverfi okkar með því að hreinsa til, viðhalda görðum, gangstéttum og stígum. Við viljum tengja betur saman skíðasvæðin og byggja upp fleiri útivistarsvæði t.d. í Tunguskógi. Við viljum bæta aðgengismál fatlaðra svo að þeir njóti sambærilegra lífskjara og aðrir. Við viljum styrkja skólana í því að vera leiðandi í fjölbreyttu skólastarfi. Við viljum fjölnota íþróttahús og skipuleggja Torfnessvæðið sem framtíðar íþróttamiðstöð fyrir alla. Við viljum virkja ungmennaráð til að heyra meira í unga fólkinu okkar og gefa þeim tækifæri á að hafa áhrif. Við viljum setja upp hundagarð til að þjónusta betur hundaeigendur í sveitarfélaginu. Við viljum finna leiðir til að bæta samgöngur innan sveitarfélagsins til að auðvelda fólki að fara á milli byggðarkjarna og börnum að sækja íþróttir og tómstundir á milli kjarna. Við viljum bjóða upp á störf án staðsetningar innan sveitarfélagsins. Við viljum færa ákvörðunarvaldið meira yfir á hvern byggðarkjarna þannig að hver kjarni haldi sinni sérstöðu og stjórni betur hvað verður um sitt nærumhverfi, og þannig sýna gott fordæmi fyrir frekari viðræður við nágranna okkar um sameiningar. Við viljum betri samgöngur á landi og í lofti til að styðja betur við atvinnulífið og ferðaþjónustuna. Við viljum Álftafjarðargöng til að komast á öruggan hátt á milli Ísafjarðar, Súðavíkur og annarra landshluta. Við viljum fjölga atvinnutækifærum fyrir fólk með skerta starfsgetu. Við viljum öfluga heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Við viljum halda áfram að vera öflugt menningarsamfélag og vinna eftir nýrri menningarstefnu. Við viljum eiga áfram góða samvinnu við tónlistarskólana í bænum sem og aðrar menningarstofnanir og félög. Við viljum sinna eldri borgurum eins vel og hægt er með félagslegum stuðning og heilsueflingu við hæfi. Við viljum einfalda stjórnsýsluna og stytta boðleiðir og ná betri tökum á rekstri sveitarfélagsins.

Við ætlum að tala upp bæinn okkar og svæðið, en á sama tíma ekki líta undan því sem betur má fara. Við sem samfélag og við sem störfum í pólitík þurfum að efla samtakamáttinn og samvinnuna, það er lykillinn að því að við færumst fram á við.

Framsókn mun vera með kosningamiðstöð í gamla Landsbankahúsinu við Pólgötu 1 á Ísafirði, einu fallegasta húsi bæjarins. Hvet ykkur til að kíkja í heimsókn og kynna ykkur nánar stefnumál okkar.

Elísabet Samúelsdóttir

Höfundur skipar 2. sætið á lista Framsóknar í Ísafjarðarbæ fyrir næstkomandi sveitastjórnarkosningar.

DEILA