47 milljónir til verkefna á Ströndum og Reykhólum

Á síðasta degi vetrar bárust þær fréttir að stuðningur hefði fengist úr aðgerð C1 í Byggðaáætlun til þriggja verkefna á Vestfjörðum. Um er að ræða sérstaklega ánægjulegar fréttir þar sem um er að ræða verkefni sem öllum er ætlað að styrkja búsetu og atvinnulíf á þeim svæðum Vestfjarða sem gera má ráð fyrir að njóti minnst áhrifa af vexti í fiskeldi.

Langvarandi fólksfækkun hefur verið á Vestfjörðum síðustu 30 ár og mannfjöldi farið úr um 9.500 árið 1990 í 6.870 í lok árs 2017 þegar íbúatalan var hvað lægst. Á Vestfjörðum búa nú ríflega 7200 manns en ef mannfjöldi á Vestfjörðum hefði haldið í við fjölgun á landsvísu væru íbúar um 12.500.  Í sveitarfélögunum á Ströndum (Strandabyggð, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur) og Reykhólum hefur fólksfækkun verið um 30% á síðustu 20 árum.

Þá fólksfjölgun sem orðið hefur á Vestfjörðum síðustu ár má rekja til uppbyggingar í fiskeldi sem orðið hefur einkum á sunnanverðum Vestfjörðum en gætir áhrifa einnig á norðursvæðinu þó í minna mæli sé en aukið fiskeldi í Dýrafirði og Ísafjarðardjúpi munu auka áhrifin enn meira á næstu árum. Svæði eins og Strandabyggð og Reykhólar þar sem ekki eru möguleikar til staðar í sjókvíaeldi geta hagnýtt nálægð við eldið til dæmis með landeldi eða seiðaeldi. 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024 úthlutað framlögum sem veitt eru til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða samanber aðgerð C-1. Lögð er sérstök áhersla á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf og eru verkefni sem hafa varanleg og veruleg jákvæð áhrif á þróun byggðar og búsetu sett í forgang. Landshlutasamtök sveitarfélaga geta fyrir hönd sóknaráætlanasvæða sótt um þau framlög sem í boði eru.

Vestfjarðastofa vann fyrir hönd Fjórðungssambands Vestfirðinga og þau sveitarfélög sem í hlut eiga þrjár umsóknir til umfjöllunar í það umsóknarferli sem nú var að ljúka. Óskað var eftir tillögum að verkefnum frá sveitarfélögum á Vestfjörðum í byrjun árs og voru nokkrar tillögur sendar inn frá sveitarfélögum á svæðinu. Stjórn Vestfjarðastofu valdi verkefni til áframhaldandi vinnu á fundi í janúar og starfsfólk vann að þeim umsóknum í samstarfi við sveitarstjórnir sem í hlut áttu og verkefnastjóra Brothættra byggða verkefna í Árneshreppi og Strandabyggð.  

Hér verður farið stuttlega yfir þau verkefni sem sótt var um stuðning til að vinna og þann árangur sem vænst er af verkefnunum.

Grænir iðngarðar á Reykhólum

Á Reykhólum er að finna mesta jarðhita Vestfjarðakjálkans og um aldir hefur hlunnindanýting vegið þungt í afkomu íbúa hvort sem horft er til dúntekju, þangsláttar eða saltvinnslu. Framtíðarsýn Reykhólahrepps er að nýting jarðhita á Reykhólum verði samfélaginu til framdráttar, efli starfsemi núverandi fyrirtækja á Reykhólum og laði rekstur nýrra fyrirtækja í hreppinn sem bæti atvinnustig og þjónustu. Í þessu skyni hyggst sveitarfélagið hafa frumkvæði að stofnun Auðlindafélags Reykhóla. Verkefninu er ætlað að tryggja að heildarsýn og skýr stefna sveitarfélagsins sem samræmist stefnu ríkisins í orku- og auðlindamálum verði lykill að farsælum skrefum fram á við fyrir íbúana á Reykhólum.

Samfélagsbreytingar 21. aldarinnar hafa skapað ný tækifæri á fjölmörgum sviðum fyrir staði og svæði sem átt hafa undir högg að sækja um langt árabil. Fullnýting afurða og sköpun nýrra afurða úr hráefni sem fellur til sem aukaafurð eða úrgangur í annarri framleiðslu dregur úr sóun og stuðlar að verðmætasköpun án þess að ganga frekar á náttúruna. Víða erlendis hafa risið svokallaðir grænir iðngarðar þar sem fjöldi ólíkra fyrirtækja kemur sér fyrir á einu skipulögðu svæði og nýtir fjölda ólíkra orku- og efnisstrauma. Hér á Íslandi er nærtækt að nefna Auðlindagarðinn HS Orku á Reykjanesi og áform um græna iðngarða sem unnið er að við Bakka á Húsavík. Vísað er jafnframt í nýlega skýrslu Íslandsstofu um Græna iðngarða sem höfð hefur verið til hliðsjónar við mótun þessa verkefnis.

Helstu einkenni iðngarðs er að hann nær yfir ákveðið svæði þar sem er sameiginlegt skipulag og framtíðarsýn, ásamt sameiginlegri stýringu. Grænn iðngarður er iðngarður sem styður við sjálfbærni með því að innleiða félagsleg, efnahagsleg og umhverfisleg sjónarmið í skipulagningu, stýringu og framkvæmd . Gríðarleg tækifæri eru á þessum sviðum um allt land og mikilvægt að draga þau fram með markvissum hætti.

Reykhólar eru eitt þeirra svæða þar sem nýta má hugmyndafræði grænna iðngarða til að auka aðdráttarafl svæðsins til fjárfestinga og nýsköpunar. Núverandi staða er að allt að 60°C heitt vatn rennur frá Þörungaverksmiðjunni til sjávar og umtalsvert er af ónýttum jarðhita á svæðinu. Nægt landrými er til fjölbreyttrar uppbyggingar sem nýta myndi auðlindir Reykhóla svo sem hótel og mögulegur baðstaður, landeldi og margvísleg tækifæri tengd virðisaukandi nýsköpun tengdri þangi og þara. Nýlega stóðu Þörungaverksmiðjan og Reykhólahreppur að stofnun Þörungamiðstöðvar á Reykhólum. Hugmyndin með stofnun græns iðngarðs á Reykhólum er að með því móti náist markvissari eftirfylgni atvinnustefnu, aukin verðmætasköpum með sjálfbærum hætti, lágmörkun auðlindanýtingar og sóunar og sterkari samkeppnisstaða varðandi beinar fjárfestingar. Að auki myndi með því skapast hvatning til rannsókna, þróunar og nýsköpunar og sjálfbærara samfélag á Reykhólum. Með verkefninu verða stigin stór skref til sjálfbærrar framtíðaruppbyggingar Reykhóla. 

Þess er vænst að árangur og áhrif verkefnisins verði víðtæk umbreyting samfélagsins á Reykhólum. Við lok átaksins verði búið að stofna græna iðngarða á Reykhólum sem verði í eigu sveitarfélagsins, ríkisins, fyrirtækja og stofnana innan og utan svæðsins.

Undirbúningur og forsendugreining hitaveitu í Árneshreppi

Tilgangur verkefnisins er að undirbúa lagningu hitaveitu og þar með bæta búsetuskilyrði fyrir íbúa í Árneshreppi og fjölga kostum er varða búsetu í Árneshreppi gagnvart nýjum íbúum. Mæta þarf alvarlegri þróun í fólksfjölda og aldursþróun, en síðustu fimm árum hafa íbúar verið um 50 manns eftir að hafa fækkað um tæpan helming frá árinu 1998. Mest hefur fækkað í hópi yngri íbúa (45 ára og yngri) afleiðing þess birtist m.a. í því að ekki hefur verið rekin grunnskóli nú í þrjú ár. Brýn nauðsyn er því að fá nýja íbúa til að viðhalda búsetu.

Úrbætur á innviðum sveitarfélagsins hefur verið langtímabarátta. Tilgangur með hitaveitu er að hún komi til viðbótar þeim gæðum sem eru í sjónmáli með lagningu ljósleiðara og þrífösun rafmagns, en á áætlun er að ljúka þessum verkefnum á árinu 2022. Auk þess sem á þessu ári hefur verið bætt í vetrarþjónustu og byggðin því ekki lengur einangruð þrjá til fjóra mánuði á ári. Tilgangur hitaveitu getur einnig falist í þróun nýrra atvinnutækifæra eða styrkingu núverandi atvinnulífs. Ákveðnar vonir eru um að hitaveitan hafi umframgetu til að afhenda vatn til atvinnurekstrar og skapa tækifæri í ferðaþjónustu sem þegar er starfandi í Norðurfirði. Kæmi það sem viðbót við núverandi nýtingu, en vatn úr borholunni hefur verið nýtt um langa hríð í Krossneslaug með góðum árangri í tengslum við ferðaþjónustu. Á það ber einnig að líta að kostnaður við núverandi hitun atvinnuhúsnæðis með rafmagni er til muna hærri en í öðrum landshlutum sérstaklega dreifingarkostnaður, lækkun hitunarkostnaðar bætir rekstargrundvöll og samkeppnishæfni fyrirtækja.

Markmiðum verkefnisins verði náð með lækkun húshitunarkostnaðar og aðgengi að heitu vatni sem auki lífsgæði íbúa og bæta samkeppnisstöðu atvinnulífs. Er þetta liður í að styrkja búsetu í sveitarfélaginu og fjölga íbúum.

Hugmynd um lagningu hitaveitu í Norðurfirði hefur verið lengi til umræðu í Árneshreppshreppi, á vettvangi sveitarstjórnar, á íbúafundum í Árneshreppi í Brothætta byggðaverkefninu „Áfram Árneshreppur“ og verkefnastjórn sama verkefnis. Eins höfðu landeigendur frumkvæði í málinu fyrir um áratug síðan en það skilaði ekki árangri á þeim tíma. Framkvæmd málsins yrði á vegum sveitafélagsins í samvinnu við landeigendur en hvorugur þessara aðila hefur fjárhagslegt eða faglegt bolmagn til að kanna til hlítar rekstrar og tæknilegar forsendur, sem leggja þarf fram til að afla stofnfjármagns og útfærslu samninga við væntanlega orkukaupendur og við landeigendur.

Árangur verkefnisins felst í að ljúka vinnu við þessa þætti svo sveitarfélagið og landeigendur geti tekið ákvörðun um framkvæmdina. Árangur felst einnig í að minnka notkun á raforku sem getur þá nýst til orkuskipta s.s. í samgöngum. Áhrif verkefnisins eiga að felast í ná fram bættum búsetuskilyrðum með lækkun kostnaðar við hitun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis fyrir núverandi og framtíðar íbúa sveitarfélagsins, bættri samkeppnisstöðu atvinnulífs og losa um raforku sem nýta má til orkuskipta. Árangur til lengri tíma litið komi fram í fjölgun íbúa og lækkun meðalaldurs. Verkefnið er mikilvægt í þá viðleitni íbúa, sveitarfélags og markmið stjórnvalda um að styrkja búsetu í Árneshreppi.

Jarðhitarannsóknir við Gálmaströnd

Strandabyggð er þátttakandi í verkefninu Brothættar Byggðir og er verkefnið rekið undir merkinu „Sterkar Strandir“. Í SVÓT greiningu verkefnisins eru tilteknir veikleikar eins og stöðnun og fábreytni á meðan tækifæri séu í nýsköpun og atvinnuþróun auk staðsetningar. Áhersla er lögð í starfsmarkmiðum á stíganda í atvinnulífi, sterka innviði og öfluga þjónustu. Sett eru markmið um að skipuleggja og framkvæma átak í aukinni fjölbreytni atvinnulífs og að möguleikar til fiskeldis verði rannsakaðir. Þetta verkefni styður við þær áherslur.

Tilgangur þess verkefnis sem stutt hefur verið er að ljúka í samstarfi við Orkubú Vestfjarða og fleiri jarðhitarannsóknum við Gálmaströnd. Þegar hefur verið varið um 300 milljónum til jarðhitaleitar sem gefið hefur góðar vísbendingar en fjárskortur hamlar því að hægt sé að ljúka verkefninu. Markmið verkefnis er að staðsetja vinnsluholu við Gálmaströnd.

Staðsetning er rétt utan við Hólmavík stutt frá vegamótum upp á Þröskulda þannig að tengingar við samgönguæðar eru tryggar fyrir mögulega atvinnuupbbygingu. Ljósleiðari liggur um svæðið og skammt frá er flutningslína raforku í Geiradal og til Hólmavíkur. Jafnframt er nægt kalt vatn á svæðinu. Verkefnið styður við fjölmargar stefnur hins opinbera og sérstaklega markmið tengd loftslagsmálum og hringrásarhagkerfi.

Með verkefninu á að ýta undir þróun fjölbreyttara atvinnulífs í Strandabyggð. Vinnsluhola af þeirri stærðargráðu sem vænst er að hægt sé að staðsetja með þessum rannsóknum opnar möguleika á atvinnuuppbyggingu í Strandabyggð sem ekki hafa verið til staðar. Staðsetning jarðhita er góð til dæmis til matfiskeldis á landi, seiðaeldis fyrir sjókvíaeldi, þörungaeldi svo eitthvað sé nefnt. Orkusjóður styrkti til skamms tíma verkefni af þessu tagi en hefur snúið sér að orkuskiptum sem setur verkefni sem þetta í mikla klemmu og hvergi fæst í raun fjármagn til að réttlæta áframhaldandi vinnu.

Næstu skref

Á næstu vikum verður hafist handa við að hrinda í framkvæmd þessum verkefnum sem lýst er hér fyrir ofan. Miklar vonir eru bundnar við að verkefnin muni leggja grunn að tækifærum til vaxtar og uppbyggingar á Ströndum og Reykhólum. 

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir
Framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

DEILA