Viljayfirlýsing vegna byggingar fjölnota íþróttahúss undirrituð

Viljayfirlýsing Ísafjarðarbæjar og íþróttafélagsins Vestra vegna byggingar fjölnota íþróttahúss á Ísafirði var undirrituð þriðjudaginn 22. mars sl. 

Forsaga málsins er að Ísafjarðarbær hefur gert ráð fyrir byggingu knatthúss í fjárhagsáætlunum bæjarins undanfarin ár. Þrátt fyrir að verkið hafið verið boðið út í tvígang hefur það ekki skilað tilætluðum árangri. Í fyrra útboðinu kom ekkert tilboð og í síðara útboðinu kom eitt ógilt tilboð. Í viljayfirlýsingunni kemur fram að „[b]ygging knatthúss mun skipta íþróttahreyfinguna á svæðinu gríðarlega miklu máli og öllum ljóst að núverandi aðstaða er ekki viðunandi. Aðstöðumunur til íþróttaiðkunar í samanburði við þau sveitarfélög sem við viljum bera okkur saman við er okkur ekki hagstæður. Auk þess má nefna að íþróttahúsið við Torfnes er löngu sprungið og myndi knatthúsið létta verulega á því og skapa svigrúm fyrir aðra hópa sem fá ekki nægan tíma til iðkunar þar í dag.“

Forsendur viljayfirlýsingarinnar eru eftirfarandi:

„Íþróttafélagið Vestri hefur lýst yfir vilja sínum til að taka yfir heildarumsjón og ábyrgð á verkefninu. Í því felst hönnun, framkvæmd og fjármögnun á byggingu fjölnota íþróttahús. Ísafjarðarbær lýsir yfir vilja til að taka húsnæðið á leigu og greiða ákveðna upphæð á ári í tiltekinn árafjölda sem nánar verður kveðið á um í samningi þegar forsendur liggja fyrir. Að leigutíma loknum eignast Ísafjarðarbæ húsnæðið að fullu.“

Samkvæmt viljayfirlýsingunni skal miða við að heildarkostnaður við verkið verði á bilinu 550-650 milljónir króna. Kostnaður við nauðsynlega undirbúningsvinnu greiðist af sjálfsaflafé/sjálfboðavinnu og styrkjum sem Vestri aflar og/eða Ísafjarðarbæ en sá kostnaður verður hluti af heildarkostnaði við framkvæmdina og þarf að samþykkjast fyrirfram af Ísafjarðarbæ.

DEILA