Um 5-13 milljón tonn af plasti enda í hafinu á ári hverju

Ályktun um að hefja viðræður um gerð lagalega bindandi alþjóðlegs sáttmála um plast og plastmengun var samþykkt á  5. umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna í Naíróbí, sem lauk í 2. mars.

Umboð til samningaviðræðna tekur ekki bara til plastmengunar í hafi og aðgerðir til að stemma stigu við henni, heldur á að berjast heildstætt gegn allri plastmengun, hvar og hvernig sem hún birtist, með aðgerðum sem beinast að öllum lífsferli plasts og stuðla að ábyrgri neyslu og framleiðslu.

Þannig verður leitað leiða til að framleiðsla og notkun plasts og meðferð á plastúrgangi verði færð til betra horfs og hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfið.

Ísland hefur verið í hópi ríkja sem hafa barist fyrir því að slíkur samningur um plastmengun sé gerður.

Samningaviðræður munu hefjast síðar á þessu ári og stefnt er að því að samningurinn liggi fyrir undir árslok 2024. Um 400 milljón tonn af plasti eru framleidd árlega og kann magnið að tvöfaldast fram til 2040, samkvæmt mati Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

DEILA