Þingmenn vilja sjálfstæðar fiskeldisrannsóknir á vegum Háskólaseturs Vestfjarða

Eyjólfur Ármannsson hefur ásamt sex þingmönnum öðrum lagt fram þingsályktunartillögu um sjálfstæðar fiskeldisrannsóknir á vegum Háskólaseturs Vestfjarða,

Þingmenn vilja að Alþingi álykti að fela skuli háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að koma á fót stöðu fiskeldisfræðings við Háskólasetur Vestfjarða. Samningur ríkisins við Háskólasetur Vestfjarða verði endurskoðaður og fjármagn tryggt fyrir stöðu fiskeldisfræðings og sjálfstæðar rannsóknir í fiskeldisfræðum á vegum setursins.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að fiskeldi sé í dag ein helsta atvinnugrein Vestfjarða og á undanförnum áratug hafi atvinnugreinin vaxið hratt og nú starfa yfir 150 manns við fiskeldi á Vestfjörðum.

„Auk þess hefur skapast fjöldi afleiddra starfa, m.a. tengd flutningi, vinnslu og pökkun.  Þessi atvinnuuppbygging hefur átt mikinn þátt í þeirri endurreisn sem Vestfirðir eru að ganga í gegnum. Fiskveiðar hafa ávallt verið ein helsta atvinnugrein á svæðinu en þegar aflaheimildir fluttust í stórum stíl til annarra landshluta fækkaði störfum með tilheyrandi áhrifum á byggðaþróun. Íbúum fækkaði statt og stöðugt á Vestfjörðum frá upphafi 9. áratugsins þangað til að viðsnúningur varð árið 2017. Þennan viðsnúning má rekja til ýmissa þátta, m.a. uppgangs í ferðaþjónustu, en óumdeilt er að fiskeldið spilar þarna lykilhlutverk. Fiskeldi er ört vaxandi atvinnugrein á Vestfjörðum. Í fyrra voru þar framleidd yfir 27 þúsund tonn af eldisfiski, sem er nærri tíu sinnum meira en framleitt var árið 2015. Útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmum 36 milljörðum kr. árið 2021 og hlutdeild Vestfjarða í þeirri verðmætasköpun er yfir 50%.“ segir meðal annars í greinargerðinni

DEILA