Skýrsla um stöðu Norðurlanda eftir heimsfaraldurinn

Skýrsla Nordregio um stöðu Norðurlanda (State of the Nordic Region 2022) var birt í dag á degi Norðurlandanna. Í ár er kastljósinu einkum beint að heimsfaraldrinum og áhrifum hans. Í skýrslunni eru fram mælikvarðar um norræna samfélagslíkanið og samanburðartölur um efnahagslegan bata eftir faraldurinn.

Nordregio er rannsóknastofnun um byggðaþróun, sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina. Stofnunin gefur skýrsluna út á tveggja ára fresti en þar er púlsinn tekinn á efnahagsmálum, vinnumarkaðnum og íbúaþróun í öllum norrænum sveitarfélögum og landshlutum. 

Í frétt Norrænu ráðherranefndarinnar um skýrsluna segir að í henni sé „dregin upp mynd af Norðurlöndum sem standa í raun ekki lengur undir orðspori sínu fyrir almenna velferð og félagslegan jöfnuð en þoldu þó býsna vel almennu niðursveifluna í alþjóðahagkerfinu og voru fljót að ná sér á strik.“

Fólk á Norðurlöndum hefur greinilega nógu mikla trú á kerfinu til að eignast börn þótt hart sé í heimi. Að Grænlandi undanskildu fæddust fleiri börn árið 2021 en árið 2020, þótt munurinn á milli ára hafi reyndar verið lítill í Svíþjóð. Í Noregi, Finnlandi og á Íslandi er þessi aukning ánægjulegur viðsnúningur eftir sílækkandi fæðingatíðni í áratug.

Þar sem fjármálakerfi Norðurlanda voru tiltölulega sterk þegar kreppan skall á var hægt að verja fé í bætur vegna vinnutaps, skattaívilnanir og stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki. Meðaltekjur heimila lækkuðu ekki, þökk sé fjárfestingum í vinnumarkaðsúrræðum. Í skýrslunni kemur einnig fram að þessar ráðstafanir gegndu lykilhlutverki í því að draga úr félagslegum áhrifum heimsfaraldursins. 

„Ráðstafanirnar voru fordæmalausar og efldu enn frekar norrænu velferðarkerfin, sem þó voru sterk fyrir. Þetta var mögulegt vegna þess að fjármálakerfi okkar voru töluvert öflugri en í fjármálakreppunni 2008,“ segir Carlos Tapia, yfirmaður rannsókna hjá Nordregio og einn höfunda skýrslunnar State of the Nordic Region. 

Á heildina litið var efnahagsleg niðursveifla á Norðurlöndum í samræmi við meðaltalið á alþjóðavísu en mun minni en í Evrópusambandinu. Verg landsframleiðsla dróst saman um 3% á Norðurlöndum miðað við 5,9% í ESB. Sökum þess hve Íslendingar eru háðir ferðaþjónustu voru áhrifin mest á Íslandi árið 2020, þar sem verg landsframleiðsla dróst saman um 7,1%.

Samanlagt virði allra efnahagslegra stuðningsráðstafana í Danmörku nam 32,7% af vergri landsframleiðslu.

 Þar á eftir kom Svíþjóð með 16,1% af vergri landsframleiðslu. Finnar, Íslendingar og Norðmenn fjárfestu sem nemur 12–14% af vergri landsframleiðslu.

Til samanburðar námu efnahagslegar stuðningsráðstafanir í ESB um 10,5% af vergri landsframleiðslu.

DEILA