Ráðning sviðsstjóra hjá Ísafjarðarbæ: Umboðsmaður Alþingis gerir ekki athugasemdir

Umboðsmaður Alþingis hefur gefið út álit sitt á kvörtun til embættisins vegna ráðningar sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar á síðasta ári. Hafdís Gunnarsdóttir þáverandi bæjarfulltrúi var ráðin í starfið.

Kvörtunin sneri að nokkrum þáttum málsins. Í fyrsta lagi að einn umsækjanda hafi verið bæjarfulltrúi og því hafi bæjarstjóri verið vanhæfur til meðferðar málsins. Í öðru lagi að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hæfi annarra bæjarfulltrúa til meðferðar málsins. Í þriðja lagi hvernig matsþættir á hæfi umsækjenda voru ákveðnir og loks í fjórða lagi að bæjarfulltrúar minnihlutans hefðu ekki haft fullnægjandi aðgang að upplýsingum um málið að hefði ekki getað lagt mat á umsækjendur.

Um starfið sóttu 10 manns og þegar fyrir lá hverjir þeir voru lýsu mannauðsstjóri og formaður bæjarráðs sig vanhæfa vegna tengsla við einn umsækjenda. Var það þá verkefni bæjarstjóra og ráðgjafa Intellecta ehf að meta hæfni umsækjenda.

Í álitinu segir að það sé ekki hlutverk Umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvern hefði átt að ráða í stöðuna heldur fjalla um hvort meðferð málsins og ákvörðun sveitarfélagsins hafi verið lögmæt.

Um þessi atriði er niðurstaða Umboðsmanns þessi:

Í fyrsta lagi var ekki litið svo á að bæjarstjóri hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins, enda ekki svo litið á að einstakir sveitarstjórnarmenn séu yfirmenn framkvæmdastjóra sveitarfélags, né að málsaðild samstarfsmanns valdi vanhæfi.

Í öðru lagi var ekki gerð athugasemd við meðferð málsins hvað snertir ákvörðun um hæfi bæjarfulltrúa, enda veldur vanhæfi nefndarmanns í pólitískri stjórnsýslunefnd, eitt og sér, að jafnaði ekki vanhæfi annarra sem sitja í nefndinni.

Í þriðja lagi að ekki yrði annað lagt til grundvallar en að við meðferð málsins hafi réttindi bæjarfulltrúa til aðgangs að gögnum og þátttöku í málsmeðferðinni verði virt.

Í fjórða lagi að ekki væru forsendur til þess að líta öðruvísi á en svo að fullnægjandi upplýsingar um hæfi umsækjenda hefði legið fyrir þegar ákvörðunin var tekin um ráðninguna og hún hafi byggst á heildstæðum samanburði á grundvelli málefnalegra sjónarmiða.

Í lokin tekur Umboðsmaður fram að málinu sé lokið.

DEILA