Orkukostnaður tvöfalt meiri á Vestfjörðum en þar sem hann er lægstur

Eins og undanfarin ár hefur Byggðastofnun fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað á ársgrundvelli, við raforkunotkun og húshitun á sömu fasteigninni, á nokkrum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli. Viðmiðunareignin er einbýlishús, 140 m² að grunnfleti og 350 m³. 

Lægsta mögulega verð fyrir viðmiðunareignina, með flutnings- og dreifingarkostnaði, fæst hjá Veitum: Í Reykjavík, í Kópavogi og austurhluta Garðabæjar, á Seltjarnarnesi, í Mosfellsbæ, á Kjalarnesi og á Akranesi, um 78 þ.kr. Hæsta gjald í skilgreindu þéttbýli er um 92 þ.kr. hjá Orkubúi Vestfjarða en raforkuverð eru nokkuð hærri í skilgreindu dreifbýli, eða 103-104 þ.kr. fyrir viðmiðunareign. Árið 2020 var lægsta mögulega verð í dreifbýli 53% hærra en lægsta mögulega verð í þéttbýli en árið 2021 hafði bilið lækkað niður í 32% vegna aukins dreifbýlisframlags.

Munurinn á húshitunarkostnaði milli svæða er mun meiri en á raforkuverði. Lægsta verð fyrir húshitun með rafmagni hefur lækkað talsvert undanfarin ár, m.a. vegna niðurgreiðslna á dreifi- og flutningskostnaði, og mikil lækkun varð árið 2021 með aukinni samkeppni á raforkusölumarkaði. Lægsti húshitunarkostnaður fyrir viðmiðunareign er á Flúðum um 68 þ.kr. og þar næst í Brautarholti á Skeiðum og á Seltjarnarnesi um 75 þ.kr. Á þessum stöðum er lægsti húshitunarkostnaður um þriðjungur af kostnaðinum þar sem hann er hæstur.

Heildarorkukostnaður er áfram lægstur á Seltjarnarnesi, á Flúðum og í Mosfellsbæ en heildarkostnaður er hæstur í Grímsey þar sem rafmagn er framleitt og hús kynt með olíu.

Næst hæsti heildarorkukostnaðurinn er í Nesjahverfi í Hornafirði, sem er skilgreint sem dreifbýli hvað raforku varðar og ný hitaveita var nýlega tekin í gagnið, en þar næst á Ísafirði, í Bolungarvík, á Patreksfirði og á Flateyri þar sem eru kyntar hitaveitur.

DEILA