Mikil uppbygging til innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum

Í ár verður úthlutað rúmlega 914 milljónum króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða sem gerir kleift að halda áfram því mikilvæga verkefni að byggja upp efnislega innviði á ferðamannastöðum, s.s. göngustíga, útsýnispalla, bílastæði og salerni. Aukin áhersla er á langtímaáætlanir í uppbyggingu staða en einnig á aukna miðlun og merkingar, ekki síst á stöðum þar sem samspil er á milli náttúru og menningarsögulegra minja.

Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum er stefnumarkandi áætlun sem Alþingi samþykkti 2018. Verkefnaáætlanir eru gerðar til þriggja ára og eru uppfærðar á hverju ári. Ný verkefnaáætlun sem ráðherra kynnti í dag nær til áranna 2022-2024.

Alls eru nú 151 verkefni á áætlun næstu þriggja ára á rúmlega 90 ferðamannastöðum, þar af 65 ný verkefni sem bætast við að þessu sinni. Þar má nefna uppbyggingu á Geysissvæðinu, byggingu útsýnispalls og göngustíga í Ásbyrgi, yfirbyggingu minja þjóðveldisbæjarins á Stöng í Þjórsárdal, skála með góðri heilsárs salernisaðstöðu í Vaglaskógi, vandaða göngustíga við Búrfellsgjá, áframhaldandi umbætur á aðgengi ofan við Gullfoss með steyptum stígum og frekari skref til bættrar aðstöðu við Jökulsárlón.

Einn þeirra staða sem nú eru inni í áætlun um uppbyggingu er Hesteyri.

DEILA