Íslenskt staðfest – Nýtt upprunamerki

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, afhjúpaði í gær nýtt íslenskt upprunamerki fyrir matvörur og blóm við hátíðlega athöfn á veitingastaðnum Hnoss í Hörpu.

Tilgangur merkisins er að auka sýnileika og markaðshlutdeild íslenskra afurða, tengja neytendur betur við frumframleiðendur og fræða þá um kosti íslenskra matvæla og verslunar.

Íslenskt staðfest er nýtt upprunamerki fyrir matvörur og blóm sem eru framleiddar og pakkað á Íslandi.

Merkið mun auðvelda neytendum að velja íslenskt, en til að mega nota merkið þurfa framleiðendur að ábyrgjast að hráefni sé íslenskt og framleiðsla hafi farið fram á Íslandi.

Kjöt, egg, sjávarafurðir og mjólk skal í öllum tilfellum vera 100% íslenskt. Allt að 25% innihalds í blönduðum/unnum matvörum má vera innflutt. 

Vottunarstofan Sýni sér um úttektir hjá þeim fyrirtækjum sem kjósa að nota merkið. Enginn má nota merkið nema hafa til þess leyfi sem sótt er um sérstaklega, gangast undir staðal merkisins og uppfylla opinberar kröfur til sinnar starfsemi. 

DEILA