Helga Guðmundsdóttir heiðursborgari Bolungarvíkur er látin

Helga Guðmundsdóttir, heiðursborgari Bolungarvíkur, lést í nótt á Hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík.

Helga fæddist 17. maí árið 1917 á Blesastöðum á Skeiðum og ólst þar upp í hópi sextán systkina, en tvö þeirra létust í æsku. Æskuár hennar voru gleðirík í blómlegri sveit á tímum mikilla umbreytinga í samfélaginu.

Helga hleypti heimdraganum eins og margt ungt fólk á þeim tíma og fór til Reykjavíkur. Þar kynntist hún mannsefni sínu, Bolvíkingnum Gunnari Hirti Halldórssyni, sjómanni og síðar verslunarmanni og útgerðarmanni, og flutti með honum til Bolungarvíkur árið 1952.

Helga og Gunnar eignuðust þrjú börn; Agnar Halldór bónda og fyrrverandi oddvita á Miklabæ í Skagafirði, Kristínu kennara í Bolungarvík og Keflavík, en hún lést árið 2014, og Ósk kennara.

Helga var elsti íbúi Bolungarvíkur og var fyrsti Bolvíkingurinn sem nær 100 ára aldri svo vitað sé. Hún var 104 ára gömul.

Helga var húsmóðir en hún vann einnig utan heimilis. Hvarvetna var hún vinsæl, jafnt af verkum sínum sem og af hlýju viðmóti og hjartagæsku.

Það er óhætt að segja að Helga sé verðugur fulltrúi þeirra kynslóða sem ruddu brautina í uppbyggingu Bolungarvíkur frá miðri síðustu öld. Framlag hennar og hennar kynslóðar er ómetanlegt og verður seint fullþakkað.

Bæjarstjórn Bolungarvíkur útnefndi Helgu Guðmundsdóttur heiðursborgara Bolungarvíkur á fundi sínum þann 19. maí 2020.

DEILA