Árið 1929 var eitt mesta gæðaár tuttugustu aldarinnar hvað veðurfar á Íslandi varðar er haft eftir Trausta Jónssyni veðurfræðingi.
Hér má sjá hvernig það blasti við augum Níelsar Jónssonar en hann var veðurathugunarmaður á Grænhóli við Gjögur á Ströndum á árunum 1921 til 1934.
Hér eru veðurlýsingar hans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 1929:
Janúar
Óvenjugóð tíð yfirleitt. Rosi nokkur 1. til 4. og 11. Fannleysur óvenjulegar. Blíðuveður og fagurt mjög oft. Seinni hluta mánaðarins lítilsháttar snjóföl og hjelur. Síðustu sex dagana hrýðarveður af og til og töluverð snjókoma frá 27. og frost þá töluvert, sjerstaklega 28. og 29., annars mjög frostalaus fyrri partinn og frostvægur síðari partinn.
Á stöku bæjum aldrey hýst enn roskið fje og hestar, en rekið saman að beitarhúsum til tilhleypingar og er fje þetta í ágætum holdum. Hýst fé snertir varla hey nema töðu og albezta úthey. Sjómenn ólmir að komast vestur og suður. Þó er fiskur hjer allmikill, frá þúsund til 3 þúsund pund í sjóferð af flöttum fiski á 12 til 15 lóðir, lóðin venjulega með 100 til 120 önglum hver. Viðburður að farið sje á sjó. Útlendir togarar hjer oft.
Febrúar
Óminnilega góð tíð yfirleitt. Elstu menn muna ekki eftir jafn góðum vetri og þessum sem af er. Frost lítil og engin mjög oft. Snjókomur litlar, oftast þunnur hjúpur sem fljótt hvarf á láglendi. Seinni hluta þessa mánaðar hefur láglendi verið autt að mestu í miðjar hlíðar, hærra hrafl og hvít ofan fjöll og snjógrunt mjög.
Nú um mánaðamótin febrúar og mars er enn ekki farið að gefa rosknu fje á nokkrum bæjum hjer í hrepp, helst á norðanbæjum. Fje víða við beitarhús, en þar sem það er haft heima er því oftast stráð lítilsháttar, að undanteknum fáum dögum í jan., en aldrei í febr. Stillur og blíðuveður oft. Vel um fisk í allan vetur og enn hjer úti í flóanum, djúpálshöllunum. Og – hrognkelsi rauðamagi farinn að veiðast hjer lítils háttar, 7 til 12 á dag í 20 til 30 faðma langa netstúfa.
Mars
Óminnilega góð tíð. Tveir elstu búhöldar hjer á áttræðisaldri muna engan vetur þessum líkan. Þeir Kristinn Magnússon, Kambi, og Guðm. Pjetursson, Ófeigsfirði, og enginn hjer ungur eða gamall. Tíunda mars kannaði jeg mjög víða klaka eða þýðu í jörð með mjóum stáltein 90 cm löngum. Var þá mjög óvíða að finna klaka í túnum og móum, aðeins lítils háttar þar sem mýrlent var og þó lítilsháttar smáblettir, flestir svo þunnir að teinninn gekk í gegnum þá. Í móum fann jeg klaka tölur í stöku lágum og loðnum börðum. Klakalaus er nú talin jörð öll á láglendi í mánaðarlokin.
Gróður í túnum mikill til að sjá 18. mars og nál lítils háttar í úthaga en þó gráblettótt tún enn í mánaðarlokin en tínir mikið grænt í úthaga. Lambagras sje mikið og víða útsprungið á bersvæði 30. mars og sóleyjahnappar í túnum á stöku stöðum. Öll vinna möguleg til jarðræktar. Frekar ókyrð af og til til sjóar en fiskur talsvert vandhittur, er í ræmum víða í dýpishöllum og svo hnöppum. Fiskreyta 2-300 á 6-8 lóðir fæst hér á firðinum.
Íshús víst flest hjer klaka eða snjólaus og illnáandi í snjó nú, fyrir skip, sagt norður allar strandir. Bagalegur fleyrum en Grænlenskum skrælingjum blíðuveturinn þessi.
Farfuglar. Heiðlóur hjer 28. mars. Tjaldar hjer 8. mars. Svanir á vötnum 10. mars og síðan. Lómar fyr. Af fönnum mínum er nú Skarðagilsskaflinn einn eftir en þó lítill.