Fréttatilkynning frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða og Orkubúi Vestfjarða vegna olíuleka frá kyndistöð Orkubús Vestfjarða á Suðureyri

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða hefur eftirlit með mengandi fyrirtækjum, hollustuhátta eftirlit og  eftirlit með vissum matvælafyrirtækjum á Vestfjörðum.  Í starfinu er ætíð leitast við að hafa gott samstarf við íbúa svæðisins.  Stór þáttur í starfinu er að taka á móti ábendingum frá íbúum.

Olíuleki 1. Suðureyri

Þann 17. febrúar barst ábending frá Íbúa á Suðureyri um að olíulykt væri við andapollinn.  Heilbrigðiseftirlitið fór á staðinn og skoðaði kyndistöð hjá Orkubúi Vestfjarða.   Í ljós kom að gaumglas á olíusíu hafði brotnað og olía farið niður í ræsi innandyra í Kyndistöð, úr ræsinu fór olían  í olíuskilju sem fylltist og fór á yfirfalli í andapoll. Dælt var úr olíuskilju og olíuhreinsir settur í tjörn.  Málinu lokað og ekki kallaðir til fleiri viðbragðsaðilar.

Olíuleki 2. Suðureyri

Þann 4. mars fékk heilbrigðiseftirlitið tilkynningar um olíulykt frá Suðureyri Þeir sem tilkynntu eru Ísafjarðarbær, OV og tveir íbúar.  Fyrsta tilkynning barst kl 9:29 frá íbúa. Heilbrigðiseftirlit var komið á staðinn um kl. 11,  í fyrstu virtist um óhapp við áfyllingu að ræða þar sem mengaður snjór var við loftunarop.  Olíulykt var megn við andapoll og við sjó, því var slökkvilið kallað til sem fyrsta viðbragð við mengunarslysi.   Farið var í að dæla olíu af tanknum og þá var orðið ljóst að mikið magn hafði farið niður.  Í fyrstu var talað um að 1000 lítrar hafi farið niður en á sunnudag var orðið ljóst að endanleg tala er um 9.200 lítrar. Við athugun á myndum sem heilbrigðiseftirlitið tók seinnipart föstudags sést að fjörur eru allar með olíuslikju.  Það var þá ljóst að lekinn hefur orðið fljótlega eftir að fyllt var á tankinn og var búin að skila sér út í sjó á föstudegi.  Heilbrigðiseftirlitið fylgdist með mengun bæði á laugardag og sunnudag og kallaði eftir aðstoð frá Umhverfisstofnun á mánudagsmorgun.  Hafnarstarfsmenn drógu þá út flotgirðingu. Starfsmenn Umhverfisstofnunar mættu til Suðureyrar um kl 18 á mánudag og skoðuðu vettvang.   Olíusori var tæmdur úr tanki á þriðjudagsmorgun, og nú er leitað eftir stað, þar sem hægt er að vinna með olíumengaðan jarðveg.     

Yfirlýsing frá Orkubúi Vestfjarða

Orkubú Vestfjarða biður íbúa Suðureyrar velvirðingar á því tjóni sem fyrirtækið hefur valdið á umhverfinu í Súgandafirði vegna olíuleka frá kyndistöð fyrirtækisins. 

Fyrirtækið hefur notið dyggrar aðstoðar Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Slökkviliðsins á Ísafirði og Ísafjarðarhafnar við að lágmarka tjónið auk þess sem leitað hefur verið ráða hjá Umhverfisstofnun sem er eftirlitsaðili með mengun í sjó.  Þá vill fyrirtækið þakka íbúum á Suðureyri óeigingjarnt starf við hreinsun og björgun fugla. 

Búið er að fjarlægja olíutank og nokkuð af olíusmituðum jarðvegi og í dag verður haldið áfram við það verk.

Búið er að koma fyrir nýjum olíugeymi við kyndistöðina og tengja hann með nýju lagnakerfi.  Orkubú Vestfjarða hefur jafnframt sett í gang vinnu við að fara yfir stöðuna á öllum olíutönkum fyrirtækisins við kyndistöðvar og varaaflsstöðvar vítt og breitt um Vestfirði.  Þá hefur einnig verið sett af stað vinna við yfirferð verkferla vegna tilkynninga um olíumengun og viðbrögð við þeim. 

F.h. Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða                       F.h. Orkubús Vestfjarða ohf
Anton Helgason, framkvæmdastjóri                  Elías Jónatansson Orkubússtjóri

DEILA