Bolvíkingurinn Guðmundur Þ. Jónsson efast um mælingar á loðnustofninum

Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri/mynd samherji.is

“Ég hreinlega man ekki eftir svona tíðarfari, það hafa verið svo að segja látlausar brælur á miðunum frá því loðnuveiðar með nót hófust í byrjun febrúar með tilheyrandi erfiðleikum og barningi,“ segir Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA 11, sem hefur vissar efasemdir um að mælingar á loðnustofninum hafi gefið rétta mynd af stærðinni. Hann segir að öflugur skipafloti hafi skipt sköpum á vertíðinni, regluleg endurnýjun sé nauðsynleg.

Mikil áta í sjónum þegar mælt var

Leyfilegur heildarafli íslensku loðnuskipanna er hátt í 700 þúsund tonn og eru um 200 þúsund tonn nú óveidd. Guðmundur skipstjóri efast um að flotanum takist að fullnýta veiðiheimildirnar, þrátt fyrir erfiðleikana sé stórri vertíð að ljúka með tilheyrandi atvinnusköpun og gjaldeyristekjum í þjóðarbúið.

„Þessi vertíð er líklega á lokametrunum, kannski er bara einn túr eftir, mesta lagi tveir. Annars var að sjást einhver loðna við Vestmannaeyjar í tækjunum, kannski er hún eitthvað seinna á ferðinni en undanfarin ár, það kemur þá fljótlega í ljós. Ég er farinn að efast um að upphaflegar mælingar hafi gefið raunsanna mynd af stærð stofnsins. Það var mikil áta í sjónum þegar mælt var, sem hugsanlega leiddi til þess að stofninn var álitinn stærri, menn hafi einfaldlega álitið átuna vera loðnu.

Vilhelm Þorsteinsson á miðunum

 Hitastig sjávar er ósköp svipað og líka straumarnir, þessir þættir hafa líka áhrif á stóru myndina. Ég er svo sem ekki með neina einhlíta skýringu á þessu en er farinn að hallast að því að mælingarnar hafi hugsanlega verið eitthvað skakkar.“

Loðnan hagar sér oft undarlega

Loðnuhrognin eru verðmætustu afurðirnar. Guðmundur segir ástandið á loðnunni mjög mismunandi milli veiðisvæða með tilliti til hrognavinnslu.

„Já, en svona er þetta. Það var ekki mikið af hrognum í loðnunni í Faxaflóa

 í síðustu viku, staðan var betri við Vestmannaeyjar. Annars hagar loðnan sér oft á tíðum undarlega og svo bætist líka við að hvalurinn hefur verið að gera okkur erfitt fyrir, hvalastofnarnir stækka ár frá ári.“

Vilhelm Þorsteinsson EA hefur reynst vel

Vilhelm Þorsteinsson EA er tæplega eins árs gamalt skip og er afar fullkomið. Guðmundur segir að Vilhelm hafi reynst afskaplega vel á þessu fyrsta ári.

„Við höfum fiskað um 75 þúsund tonn á þessu fyrsta ári, þar af er loðna um 30 þúsund tonn. Skipið fer vel með áhöfnina og allur búnaður er fyrsta flokks. Fyrir okkur Íslendinga skiptir miklu máli að skipaflotinn sé sem öflugastur, það hefur sannast ágætlega á þessari vertíð, sem er senn á enda.“

Kolmunnavertíðin að hefjast

Næsta vertíð er rétt handan við hornið, kolmunnavertíðin.

„Já, sú vertíð hefst væntanlega 10. apríl, þannig að það er skammt á milli vertíða hjá okkur. Ég enda þessa stóru loðnuvertíð þokkalega sáttur, það er ekki annað hægt. Því er hins vegar ekki að neita að maður var bjartsýnni í upphafi en svona er þetta bara. Við skipstjórarnir höfum náttúrulega ýmislegt um að ræða í talstöðinni þessa dagana varðandi uppgjör á vertíðinni. Náttúran er óútreiknanleg og maður nær ekki að skilja alla þætti hennar, þótt tækninni hafi fleygt fram á undanförnum árum og skipaflotinn orðið betri. Meðal annars þess vegna er sjómennskan svo heillandi. Það styttist sem sagt í að maður gleymi loðnu og hugsi dag og nótt um kolmunna,“ segir Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA.

Af vefsíðu Samherja

DEILA