Barnvæn sveitarfélög í öllum landshlutum

Fulltrúar Grundarfjarðarbæjar, Múlaþings og Strandabyggðar ásamt Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, og Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi

Þann 11. mars bættust Strandabyggð, Grundarfjarðarbær og Múlaþing í hóp þeirra sveitarfélaga sem vinna verkefnið Barnvæn sveitarfélög UNICEF sem stutt er af mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Sveitarfélögin munu þannig innleiða Barnasáttmálann með markvissum hætti í alla sína stjórnsýslu og starfsemi með stuðningi frá UNICEF á Íslandi.

Með þátttöku þessara sveitarfélaga má nú finna sveitarfélög sem vinna að verkefninu í öllum landshlutum en Strandabyggð er fyrsta sveitarfélagið á Vestfjörðum til að hefja þessa vinnu og Grundarfjarðarbær fyrst sveitarfélaga á Snæfellsnesi.

Múlaþing bætist í hóp Fjarðabyggðar og Vopnafjarðahrepps á Austurlandi sem þýðir að nú búa nær öll börn á Austurlandi í sveitarfélagi sem vinnur að viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag.

Sveitarfélögin móta sér aðgerðaáætlun þar sem aðgerðum sem snúa að þessum markmiðum er forgangsraðað. Þegar allar aðgerðir hafa verið unnar getur sveitarfélagið sótt um viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag.

Verkefnið er hugsað sem hringrás en ekki átaksverkefni en það er eilífðarverkefni að hlúa að réttindum barna. Þannig felur viðurkenning UNICEF ekki í sér vottun, heldur er hún staðfesting á því að átt hafi sér stað ákveðin vinna, réttindum barna til hagsbóta.

Í dag hafa tvö sveitarfélög hlotið viðurkenninguna, Akureyri árið 2020 og Kópavogur 2021.

DEILA