Baktería varð að bókaflokki

Höfundur Hjólabókanna, Ómar Smári Kristinsson, hjólaði ekki mikið fyrst eftir að hann kom til Vestfjarða. Í Æðey, þar sem hann sinnti veðurtöku og búskap, ásamt konu sinni Nínu Ivanovu, var hvorki reiðhjól né vegir til að hjóla á. Öll sumur voru hjónin svo uppi á Landmannaafrétti að byggja upp verslunarveldi. Þar gafst ekki tími til neins nema að vinna. Þar hittu þau fjölda ferðafólks sem sagði þeim ferðasögur en sjálf komust þau ekki spönn frá rassi. Árið 2010 sögðu þau skilið við reksturinn og öðluðust þá langþráð ferðafrelsi.   Þá var Smári byrjaður að stunda fjallgöngur og aðra útivist af eins miklu afli og tími vannst til. Það veitti honum ánægju en fyrst og fremst var það heilsufarið á honum sem krafðist þess. Frændi hans lánaði honum reiðhjólið sitt. Þá small eitthvað saman. Þarna var komið tæki sem gat sameinað heilsuræktina, útivistina og ferðalögin. Á reiðhjóli er hægt að skoða heiminn í þeim hægagangi sem Smára er eðlislægur. Samt er hægt að komast yfir mun stærra svæði en gangandi vegfarendur og láta hjólið bera farangurinn. Ólíkt bílferðalögum eru öll skilningarvitin virkjuð í hjólaferðum. Upplifunin af umhverfinu er mun sterkari. Smári var kominn með hjólabakteríu. Hann keypti sér sitt eigið reiðhjól. Síðan þá hefur hann hjólað á því 4 – 5 þúsund kílómetra á ári.

Þegar hér var komið sögu höfðu Smári og Nína hafið farsælt samstarf við Hallgrím Sveinsson í Vestfirska forlaginu. Þau, einkum Nína, sáu um umbrot og hönnun flestra bóka forlagsins. Hugmynd að Hjólabók varð til í kolli Smára og Hallgrímur samþykkti að gefa hana út. Sveitastráknum Smára fannst hann þurfa erindi á flakki sínu (eins og andleg og líkamleg heilsa væru ekki ærið erindi ein og sér). Hann kunni að miðla fróðleik og upplýsingum, verandi kominn á farsælt skrið sem kortateiknari. Hann kunni að taka ljósmyndir og skrifa texta. Nína var þá orðin það fær umbrjótari að hún gat tekið að sér flókna bók með textum, skýringum, kortum og fjölda mynda. Vestfirska forlagið var boðið og búið að ýta ævintýrinu úr vör. Að sjálfsögðu hófst ferðin á Vestfjörðum.

Hjólabókin – 1. Bók: Vestfirðir – Dagleiðir í hring á hjóli kom út árið 2011. Í bókinni er 14 leiðum lýst. Þær eiga það sameiginlegt að liggja í hring og að hægt er að loka hringnum á einum degi. Leiðirnar eru allt frá því að vera stuttar og fjölskylduvænar láglendisleiðir upp í að vera 12 tíma puð í brekkum og torleiði. Efninu er komið til skila með kortum, táknum og ljósmyndum sem sýna lesandanum hverju hann megi búast við. Allar leiðirnar á kortunum eru teiknaðar með litaskala sem útskýrir hve brattinn er mikill. Slíkar upplýsingar skipta hjólreiðafólk máli.

Sarah Thomas heitir enskur mannfræðingur og rithöfundur. Hún er vinkona Smára og bjó á þessum tíma í Hnífsdal. Hún þýddi Hjólabókina yfir á ensku og bætti við skemmtilegum og notadrjúgum örnefnakafla í bókarlok. Strax árið 2012 var Vestfirska forlagið búið að koma þeirri bók, The Biking Book of Iceland – Part 1: The Westfjords, á markaðinn. Enn sem komið er er þetta eina Hjólabókin sem komið hefur út á öðru máli en Íslensku.

Nú eru Hjólabækur Smára orðnar 9 talsins ef Biking Book er talin með. Hann hefur skrifað bók um Vesturland, tvær bækur um Suðvesturhornið (fyrri bókin var orðin úrelt og uppseld), tvær um Árnessýslu (sömu ástæður), Rangárvallasýslubók og eina bók um Skaftafellssýslurnar. Hann er byrjaður að safna leiðum í bók um Austurland. Ef honum endist aldur og heilsa til mun hann ljúka hringnum með tveimur bókum um Norðurland. Leiðarlýsingarnar sem komnar eru út nú þegar eru 101 talsins. Þær eru samtals 4.412 km. Tveimur þessara leiða tókst Smára ekki að ljúka á hjólinu sínu, annarri vegna veðurs og hinni vegna slyss. Bækurnar eru til á öllum helstu bókasöfnum landsins og í flestum bókaverslunum.

DEILA