Auðlindagjald í fiskeldi: laxeldið mun greiða milljarða kr. árlega í ríkissjóð

Í greiningu KPMG á gjaldtöku á sjávarútveg og fiskeldi sem Samtök sjávarútvegssveitarfélaga hafa kynnt kemur fram að auðlindagjald á fiskeldi kemur til með að skila 2 – 2,5 milljörðum króna árlega í ríkissjóð.

Sumarið 2019 voru sett lög um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð þar sem rekstrarleyfishöfum fiskeldisstöðva er gert að greiða gjald vegna starfseminnar.

Gjaldinu ber að tryggja ríkissjóði endurgjald á nýtingu hafsvæða til að mæta kostnaði við stjórnsýslu og til að leggja grunn að Fiskeldissjóði sem samkvæmt lögunum skal styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er
stundað og þar með samfélög á þeim svæðum.

Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm slátraðs lax skal miðast við meðaltal alþjóðlegs markaðsverðs á atlantshafslaxi frá ágúst til október næst fyrir ákvörðunardag. Gjald vegna slátraðs regnbogasilungs skal vera helmingi lægra. Gjaldið er 3,5% af markaðsverðinu. Það var fyrst lagt á árið 2020 og kemur til framkvæmda í áföngum og verður að fullu lagt á árið 2026. Tekjurnar af gjaldinu 2020 voru 53 m.kr.

Í greiningu KPMG kemur fram að fullt gjald af laxeldisframleiðslu ársins 2020 hefðu verið 723 m.kr en framleiðslan var þá 32 þúsund tonn. Í fyrra varð framleiðslan mun meiri eða 46,5 þúsund tonn. Það hefði skilað rúmum milljarði króna væri gjaldið komið að fullu til framkvæmda.

Í meðfylgjaldi töflu má sjá að miðað við 50 þúsund tonn framleiðslu á laxi og 800 kr/kg markaðsverð væri fullar tekjur af galdinu 1,4 milljarður króna. Það gæti farið upp í 2,2 milljarða króna við 80 þúsund tonna ársframleiðslu.

Gjaldið rennur að fullu í ríkissjóð. Sveitarfélögin þar sem fiskeldið er stundað vilja hins vegar að fá hlutdeild í þessum tekjum til þess að standa straum að kostnaði vegna uppbyggingar innviða fyrir eldið.

Heimild: KPMG

DEILA