Atburðir í Úkraínu hafa áhrif á viðskipti með sjávarafurðir frá Íslandi

Frá því að Rússar lokuðu á viðskipti með sjávarafurðir frá Íslandi árið 2015 hefur Úkraína verið eitt mikilvægasta viðskiptaland Íslendinga fyrir uppsjávarafurðir.

Þangað er mikið flutt út af síld, makríl og loðnu. Opinberar tölur frá Hagstofunni um útflutning á sjávarafurðum til Úkraínu gefa til kynna að hann hafi verið í kringum 4 milljarða króna á undanförnum árum. Útflutningurinn er þó umtalsvert meiri en þessar tölur gefa til kynna og er ástæðan sú að afurðir hafa viðkomu í þriðja landi. Til að mynda fer stærsti hluti af þeim afurðum sem fluttar eru til Litháens áfram til Úkraínu og af myndinni hér með má sjá að það munar talsvert um þann útflutning.

Á myndinni hér fyrir ofan má jafnframt sjá að talsvert hefur verið flutt út af eldisafurðum beint til Úkraínu á undanförnum tveimur árum. Í fyrra nam hann 2,2 milljörðum króna, þar af lax fyrir rúman 1,8 milljarða króna og silungur fyrir 400 milljónir.

Þannig að ætla má að viðskipti Úkraínu með íslenskar sjávar- og eldisafurðir hafi verið nær 9-11 milljörðum króna á undanförnum árum. Það kemur heim og saman við tölur frá Úkraínu, en samkvæmt þeim flytja þeir næst mest inn af fiskafurðum frá Íslandi en mest frá Noregi.

DEILA