Vesturbyggð: meirihlutinn telur mikilvægt að skoða virkjunarkosti

Meirihluti Nýrrar sýnar í bæjarstjón Vesturbyggðar var inntur eftir afstöðu sinni til Vatnsfjarðarvirkjunar, en fram hefur komið að minnihlutinn, Sjálfstæðismenn og óháðir vilja skoða þann kost sem raunhæfan valkost til þess að auka raforkuframleiðslu á vestfjörðum og auka afhendingaröryggi.

Í svari meirihlutans segir að það sé almennt fremur en að taka afstöðu til eins virkjunarkost umfram annars. Segir þar að mikilvægt sé að þeir virkjunarkostur sem eru í umræðunni verði skoðaðir sem hluti af heildarlausn í orkumálum á Vestfjörðum.

„Á vegum umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra er nú starfandi starfshópur sem falið er að skoða orkumál á Vestfjörðum, tengingar og samspil í orkumálum sem og hvaða leiðir séu til að efla stöðu orkumála, með hliðsjón af vaxandi tækifærum til atvinnusköpunar, jöfnun búsetuskilyrða og orkuskipta. Starfshópnum er falið að skoða orkumál Vestfjarða heildstætt til framtíðar. Að hálfu meirihluta bæjarstjórnar Vesturbyggðar er mikilvægt að staða orkumála á Vestfjörðum verði elfd og bindur hún vonir við að niðurstaða starfshópsins nýtist til að þoka þessum mikilvægu innviðamálum áfram.

Meirihluti bæjarstjórnar Vesturbyggðar telur mikilvægt að þeir virkjunarkostir sem eru í umræðunni hvort sem er í vatns- og vindorku, verði skoðaðir sem hluti af heildarlausn í orkumálum á Vestfjörðum en sú skoðun og vinna leiði ekki til ennfrekari seinkunar á því að flutningskerfi raforku á Vestfjörðum verði styrkt og fresti ekki enn frekar tvöföldun Vesturlínu. Vestfirðir hafa um áratugi setið á hakanum þegar kemur að afhendingaröryggi raforku og hefur sjaldan eða aldrei verið jafn brýn þröf fyrir örugga afhendingu raforku á Vestfjörðum, m.a. með aukinni atvinnustarfsemi, fjölgun íbúa og undirbúningi fyrir orkuskipti sem þegar er hafinn innan fjórðungsins.“

DEILA