Vestubyggð: harmar afstöðu Tálknafjarðarhrepps til sameiningar

Ráðhús Vesturbyggðar.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar harmar það í bókun sem samþykkt var á síðasta sveitarstjórnarfundi að sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps hafi vísað boði Vesturbyggðar um viðræður um sameiningu sveitarfélaganna áfram til komandi sveitarstjórnar, í stað þess að hefja samtal um sameiningu sveitarfélaganna með öllum þeim miklu tækifærum sem kunna að felast í sameiningu, þá sérstaklega þar sem þegar er mikið og gott samstarf á milli sveitarfélaganna tveggja.

Vesturbyggð hafði í desember síðastliðinn óskað eftir viðræðum um sameiningu sveitarfélaganna. Í svari Tálknafjarðarhrepps frá því í byrjun febrúar kom fram að erindi Vesturbyggðar hafði verið vísað til umfjöllunar hjá nýrri sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps sem tekur við eftir kosningar í vor.

Fjórir sveitarstjórnarmenn í Tálknafirði stóðu að þeirri samþykkt en einn vildi þiggja boðið og hefja sameiningarviðræður.

DEILA