Vestfjarðastofa: lýsir áhyggjum af skerðingu á raforku til Vestfjarða

Hvalárvirkjun er meðal þeirra virkjunarkosta sem bent er á.

Á síðasta fundi stjórnar Vestfjarðarstofu var farið yfir stöðu raforkumála í fjórðungnum í ljósi þess að Landsvirkjun hefur takmarkað sölu á raforku og nýtt sér ákvæði um að skerða það magn sem afhent er. Fyrir vikið verður annaðhvort að framleiða rafmagn með olíu eða að kaupa forgangsorku á mun hærra verði.

Í ályktun sem stjórnin sendi frá sér er farið fram á að kostnaðurinn falli ekki á íbúa og fyrirtæki á Vestfjörðum.Þá segir að staðan hafi verið fyrirsjáanleg og sé afleiðing af stefnuleysi stjórnvalda. Vísað er til greininga sem fyrir liggja og hafa að geyma tillögur til úrbóta um styrkingu flutningskerfisins og nýjar vikjanir í fjórðungnum.

„Stjórn kallar eftir að stjórnvöld og Landsvirkjun tryggi að kostnaður vegna þessarar stöðu falli ekki aðeins á íbúa og atvinnulíf á Vestfjörðum. Eins lýsir stjórn Vestfjarðastofu áhyggjum af áhrifum þessarar stöðu á rekstur og fjárfestingargetu Orkubús Vestfjarða, m.a seinkunum í verkefnum er varðar þrífösun rafmagns og undirbúningi nýrrar orkuvinnslu s.s. vatnsafls og jarðhita.
Stjórn Vestfjarðastofu bendir á að sú staða sem upp er kominn hafi verið fyrirsjáanleg og er enn ein birtingarmynd af þeirri vöntun sem er á stefnumarkandi ákvörðunum stjórnvalda í orkumálum á Vestfjörðum.
Stjórn Vestfjarðastofu vísar til ályktunar Fjórðungsþinga Vestfirðinga og nú síðast 66. Fjórðungsþings um orkumál. Bent er á að fjöldi skýrslna um greiningu á stöðu og tillögur að úrbótum í málaflokknum liggja fyrir og stjórnvöld geta nýtt sér til að taka nauðsynlegar ákvarðanir. Hér blasa við ákvarðanir um undirbúning að styrkingu flutningskerfis raforku innan Vestfjarða og bættra tenginga við aðra landshluta og ákvarðanir varðandi undirbúning vatnsaflsvirkjana og vindorkuvirkjana innan Vestfjarða.
Að óbreyttu tapa Vestfirðir á hverjum degi af nýjum tækifærum og þeim ávinningi sem ella væri til staðar ef Vestfirðir væru í samkeppnishæfri stöðu miðað við aðra landshluta í raforkumálum.“

DEILA