Vestfirðingur á EM í bogfimi

Sveigbogaliðið á EM. Haraldur til vinstri. Myndir: aðsendar.

Nýlokið er Evrópumeistarmóti í bogfimi innanhúss. Það var haldið í Slóveníu og sendi Bogfimisamband Íslands um 20 keppendur.

Einn þeirra er Patreksfirðingurinn Haraldur Gústafsson. Hann sagði í samtali við Bæjarins besta að hann hefði tekið þátt í mótum erlendis frá 2018 og almennur áhugi á greininni hérelndis hefði farið vaxandi síðustu ár. Fjöldi iðkenda væri orðinn nokkuð mikill jafnvel mælt á erlenda mælikvarða. Mestur er áhuginn á höfuðborgarsvæðinu en félög eru starfandi á landsbyggðinni svo sem á Austurlandi þar sem Haraldur er búsettur.

Haraldur segir að bogfimi sé mikil tæknigrein og að kraftar í kögglum skili einir og sér mönnum ekki langt. Hann hefur auk þess að æfa sig þjálfað aðra í mörg ár.

Keppt er með þrjár gerðir boga sveigboga, trissuboga og langboga.

Íslenska liðið með Harald innanborða náði 9. sæti í liðakeppninni í sveigboga og sló hann landsliðsmet karla liðakeppni. Á mótinu tókst Haraldi að slá Íslandsmetið í sveigboga karla 50+ auk þess að vera með hæsta skor Íslensku keppendanna. Í einstaklingskeppninni náði hann 44. sæti.

Næst framundan eru Evrópumeistaramótið utanhúss sem verður í München í sumar. Þar mun Haraldur keppa í ólympýskum sveigboga.

Haraldur lengst til hægri á myndinni dregur upp sveigbogann.

DEILA