Útflutningsverðmæti eldisafurða nam um 5,9 milljörðum króna í janúar og hefur það aldrei verið meira í einum mánuði.
Miðað við janúar í fyrra er aukningin um 88% í krónum talið. Á föstu gengi er aukningin nokkuð meiri, eða um 96%, þar sem gengi krónunnar var rúmlega 4% sterkara nú í janúar en í sama mánuði í fyrra.
Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum um vöruskipti í janúar sem Hagstofan birti í gærmorgun. Ekki eru ekki birtar tölur fyrir hverja tegund, en þær verða birtar í lok þessa mánaðar.
Aukning í fiskeldi var talsvert umfram aðra liði vöruútflutnings og því jókst hlutdeild eldisafurða í verðmæti vöruútflutnings á milli ára úr 6,4% í 7,7%.
Vægi þeirra í vöruútflutningi frá Íslandi hefur aldrei verið meira. Verðmæti eldisafurða var jafnframt hátt í fjórðungur af verðmæti sjávarafurða í mánuðinum, en það hlutfall hefur aldrei verið svo hátt.