Þingmenn vilja nýja Breiðafjarðarferju og að Herjólfur taki við

Baldur í togi rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar. Mynd: Landhelgisgæslan.

Eyjólfur Ármannsson, ásamt öðrum þingmönnum Flokks fólksins, og þeim Bjarna Jónssyni (VG) og Ásmundi Friðrikssyni (D) hafa flutt á Alþingi þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að ríkið hefji nú þegar undirbúning fyrir kaup á nýrri Breiðafjarðarferju.

Þar til ný ferja komi taki Herjólfur III við siglingum yfir fjörðinn.

Í tillögunni segir „Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að láta kaupa nýja ferju sem verði notuð í reglulegum ferjusiglingum á Breiðafirði.

Ferjan uppfylli nútímakröfur um öryggi og þægindi í farþegaflutningum og geti sinnt vöruflutningum fyrir atvinnulíf og íbúa á Vestfjörðum og við Breiðafjörð. Kannaðir verði möguleikar á að ferjan verði knúin með endurnýjanlegum orkugjöfum. Vegagerðin hafi virkt samráð við sveitarfélög á Vesturlandi og Vestfjörðum um hvaða kröfur ferjan skuli uppfylla.

Þar til ný ferja verður tekin í notkun skuli nýta skipið Herjólf III, skráningarnúmer 2164, í reglulegum ferjusiglingum á Breiðafirði. Eins fljótt og auðið er, og eigi síðar en í júní 2022, skuli hefja framkvæmdir á hafnarmannvirkjum á ferjuleið til að tryggja að Herjólfur III geti tekið við ferjusiglingum sem fyrst.“

Flutningsmenn tillögunnar minna á að Baldur á eigi 100 ára afmæli árið 2024. Von flutningsmanna er sú að afmælisgjöfin, ný ferja, berist sem fyrst.

DEILA