Sveitarfélög geta ekki haldið áfram á sömu braut

Haraldur Líndal Haraldsson fyrrv. bæjarstjóri á Ísafirði og í Hafnarfirði og ráðgjafi með áratuga reynslu dregur upp skýra en óneitanlega dökka mynd af fjármálum sveitarfélaga og þróun þeirra í viðtali við Vísi.

Að mati Haraldar stefnir í óefni ef sveitarfélög koma ekki böndum á hækkun launagjalda og fjölgun stöðugilda. Launakostnaður hefur hækkað um 7 prósentustig af tekjum sveitarfélaga frá 2010 til 2020 eða sem nemur 26 ma.kr.

Fjölgun stöðugilda má að einhverju leyti rekja til þjónustu við fatlað fólk sem sveitarfélögin tóku yfir árið 2011. Haraldur bendir á að þeim sem nýta þjónustu fyrir fatlað fólk hafi fjölgað um hátt í 70 til 80% frá yfirtökunni.

Fjölgun starfsmanna leik- og  grunnskóla hefur fjölgað langt umfram fjölgun nemenda. En Haraldur spyr jafnframt hvort samsetning starfsfólks sé rétt til þess að takast á við velferðarþjónustu í skólakerfinu með stefnunni um skóla án aðgreiningar. „Þurfum við ekki meira af fagfólki öðru en kennurum í grunn- og leikskólakerfinu“ spyr hann.

Stöðugildum hefur fjölgað en engu að síður er skortur á alls konar fagfólki. Haraldur leggur áherslu á að gera þurfi áætlun um hvernig eftirspurn eftir þessu fagfólki verði mætt.

Hann segir bókhald vera lítið dæmi sem varpar þó ljósi á eðli vandans. „Fyrir tíu árum fengu nánast öll sveitarfélög reikninga í pósti. Þá þurfti að slá inn allar kennitölur, fjárhæð reikninga, dagsetningar, eindaga o.s.frv., og skanna reikningana inn í kerfið. Í dag taka þau ekki við reikningum í pósti. Þeir eru sendir stafrænt og í versta falli þarf að slá inn lykilnúmer til að samþykkja þá,“ útskýrir Haraldur.

Haraldur bendir á að erfitt geti verið að fækka starfsfólki. „En ef sveitarfélögin átta sig tímanlega á því að fjölgun stöðugilda getur ekki gengið ár eftir ár – í stað þess að halda áfram þar til í óefni er komið- þá er hægt að setja markmið um fjölgun og ná þeim með því að sleppa endurráðningum þegar starfsmaður segir upp eða lætur af störfum.“  

DEILA