
Óformlegar viðræður milli Strandabyggðar og Reykhólahrepps um sameiningu sveitarfélaganna eru hafnar og var fyrsti fundurinn þann 20. janúar.
Sveitarstjórn Strandabyggðar bókar að góður samhljómur hafi verið með sveitarstjórnarfólki á fundinum og góð og hreinskiptin umræða hafi orðið um stöðu sveitarfélaganna.
Samþykkt var að senda Dalabyggð boð um fund sveitarstjórnarfólks í þessum þremur sveitarfélögum. Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti að sækja um framlag til Jöfnunarsjóðs til óformlegra sameiningarviðræðna.
Í Strandabyggð reyndist á íbúafundi mestur stuðningur við sameiningu allra þriggja sveitarfélaganna í Strandasýslu og Reykhólahrepps og Dalabyggðar. Kannaður var hugur þessara sveitarfélaga til slíkrar sameiningar og reyndist aðeins Reykhólahreppur jákvæður fyrir hugmyndinni að sinni.