Sjávarútvegurinn og fiskeldið greiddu árið 2020 tæpa 48 milljarða króna í skatta og gjöld samkvæmt skýrslu sem KPMG vann fyrir samtök sjávarútvegssveitarfélaga og tók fyrir greiningu á gjaldtöku af sjávarútvegi og fiskeldi.
Tilefni þess að stjórn samtakanna ákvað á gera greiningu á gjaldtöku á sjávarútvegi og fiskeldi og hvernig þær tekjur skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga er m.a. vegna aukinnar gjaldtöku af hálfu ríkisins á þessum tveimur atvinnugreinum og aukinna krafna á sveitarfélögin um aukna þjónustu og bætta innviði. Í greiningunni kemur fram að hlutdeild sveitarfélaga í heildargjaldtöku í sjávarútvegi og fiskeldi hefur verið á bilinu 26-29% á árunum 2016-2020 og er það fyrst og fremst útsvarsgreiðslur launþega.
Í tilkynningu frá samtökunum segir að með greiningunni liggi nú fyrir heildstætt yfirlit yfir tekjur af þessum tveimur atvinnugreinum og hvernig þær skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga. „Greining á gjaldtöku af sjávarútvegi og fiskeldi er því eitt af þeim mikilvægu gögnum sem samtökin hafa látið vinna og mun vonandi nýtast aðildarsveitarfélögum samtakanna í samtalinu sem framundan er um tekjustofna sveitarfélaga.“
Formaður samtakanna er Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð.
Aflagjöld og útsvar
Til sveitarfélaganna fóru um 14 milljarðar króna af þessum 48 milljörðum kr. Um 12 milljarðar króna er hlutur sveitarfélaganna í staðgreiðslunni af launþegum í atvinnugreininni og síðan 2,1 milljarður króna í aflagjöld. Til ríkisins renna 55% af staðgreiðslunni og allar tekjur af 6 sköttum og gjöldum.
Einn skattstofninn til ríkisins er auðlindagjald af fiskeldi sem skilaði 53 m.kr. árið 2020. Hann mun fara ört vaxandi á næstu árum af tveimur ástæðum. Magnið af eldisfiski mun fara mjög vaxandi mælt í tonnum og skattprósentan hækkar í áföngum á næstu árum og verður árið 2026 orðið 3,5% af útflutningsverði hvers kg. Fyrsta árið sem auðlindagjaldið var greitt var 2020 og var það 1/7 af endanlegu gjaldi. Það hækkar svo um 1/7 á hverju ári fram til 2026 þegar það verður að fullu komið til framkvæmda. Miðað við áform um framleiðsluaukningu frá 2020 til 2026 má ætla að auðlindagjaldið gæti skilað milljarði króna árlega.