Sameining sveitarfélaga: Tálknafjörður hafnar Vesturbyggð

Tálknafjörður.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps ræddi á fundi sínum fyrr í vikunni um sameiningu sveitarfélaga. Sveitarstjórnin sendi erindis til sjö sveitarfélaga á Vestfjörðum með ósk um óformlegar viðræður um sameiningu þeirra. Undirtektir voru dræmar við hugmyndinni en erindi barst frá Vesturbyggð með ósk um viðræður við sveitarstjórn
Tálknafjarðarhrepps til að ræða sameiningarvilja þessara tveggja sveitarfélaga.

Ekki hlaut erindið Vesturbyggðar brautargengi því fjórir sveitarstjórnarmenn af fimm samþykktu að vísa erindi Vesturbyggðar til umfjöllunar hjá nýrri sveitarstjórn sem tekur við eftir kosningar í vor.

Fimmti sveitarstjórnarmaðurinn, Ingibjörg Ósk Þórhallsdóttir sat hjá við afgreiðslu málsins og bókaði eftirfarandi:

„Þar sem Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð eru nú þegar orðin að miklu leyti eitt atvinnusvæði og mikið samstarf orðið á milli sveitarfélagana tveggja á mörgum sviðum þykir mér fráleitt að leita út fyrir sunnanverða Vestfirði til sameiningar við önnur sveitarfélög sem langt í frá eru nærliggjandi.
Tálknafjarðarhreppur ætti að mínu mati að leita til Vesturbyggðar og þiggja boð þeirra til viðræðna sem allra fyrst.“

DEILA