SalMar hefur tryggt sér meirihlutann í NTS

Gustav Witzöe

Erlendir vefmiðlar greina frá því í gær að SalMar hafi tryggt sér samþykki eigenda 50,1% hlutafjár í NTS fyrir yfirtökutilboði sínu. Áður var það gert opinbert á mánudaginn að SalMar hefði tryggan stuðning 23,6% eigenda í NTS og vilyrði frá öðrum 26,5% til viðbótar. Nú virðist SalMar hafa tekist að fá endanlegt samþykki þeirra sem fyrirvara höfðu á samþykki sínu.

Samkvæmt þessu hefur yfirtakan verið samþykkt og formsatriði að ganga frá samningunum. Gangi það eftir verða vestfirsku laxeldisfyrirtækin Arnarlax og Arctic Fish í eigu sama aðila og fyrirsjáanlegt að rekstur þeirra verði felldur saman eða jafnvel að þau verði sameinuð.

Gustav Witzøe stjórnarformaður SalMar segir í viðtali við laks.no að með þessu bætist 124 þúsund tonna framleiðsla á vegum NTS,NRS og Arctic Fish við framleiðslu SalMar sem er með 237 þúsund tonna framleiðslu í Noregi, Skotlandi og á Íslandi. SalMar geti orðið jafnstórt og Mowi í Noregi sem er það stærsta í laxeldinu og slátraði 466 þúsund tonnum í fyrra og eigi að auki betri vaxtarmöguleika.

Mowi sóttist einnig eftir því að komast yfir NTS en tilboð SalMar fékk meiri stuðning meðal hluthafa NTS.

Frekari upplýsingar um kaupin eru boðuð í dag.

DEILA