Patreksfjörður: OV leitar að heitu vatni

Grenndarkynning stendur nú yfir á Patreksfirði á áformum Orkubús Vestfjarða um borun eftir heitu vatni til þess að kanna hvort nægjanlega heitt og mikið vatn finnist til að keyra fjarvarmaveituna á staðnum með varmadælu, en rafketill veitunnar er að mestu keyrður á skerðanlegri orku.

Ætlunin er að dýpka tvær borholur undir Geirseyrarmúlanum sem og að bora á tvær nýjar holur. Svæðið er innan við íbúðabyggðina á Björgum þar sem kirkjugarðurinn er. Fyrir eru tvær grannar rannsóknarholur sem verða gerðar að vinnsluholum. Nýju holurnar verða 150 metra djúpar.

Í venjulegu árferði þarf um 60.000 lítra af olíu fyrir fjarvarmaveituna en nú stefnir í að það muni þurfa 570.000 lítra í vetur.

Í erindi Orkubús Vestfjarða kemur fram að 13 holur séu á svæðinu beggja megin við Mikladalsána. Ný skýrsla íslenskra Orkurannsókna leiði í ljós að hugsanlega megi ná upp 20 – 40 gráðu heitu vatni. Finnist þetta vatn og í nægjanlegu magni er komin forsenda fyrir því að nýta jarðhitann fyrir miðlæga varmadælu sem hitar vatn fyrir dreifikerfi OV á staðnum. Magnið þarf að vera 30 lítrar á sek. miðað við 22 gráðu heitt vatn. Hærra hitastig á vatninu minnkar magnið sem þarf.

DEILA