Opna skrifstofusetur á Ísafirði í vor í gamla Landsbankahúsinu

Regus á Íslandi opnar í byrjun apríl fullbúið skrifstofusetur í gamla Landsbankahúsinu á Ísafirði. Regus tekur húsið á leigu, en samningur um leiguna hefur þegar verið undirritaður við Fljót ehf., eiganda húsnæðisins. Undir samninginn skrifuðu Erna Karla Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Regus á Íslandi, og Elín Marta Eiríksdóttir, fyrir hönd eiganda hússins.

Framkvæmdir til að laga húsnæðið að nýrri starfsemi eru þegar hafnar, en í því verður fyrst um sinn aðstaða fyrir um 40 manns. Í húsinu verður boðið upp á opin og lokuð vinnurými, fundaraðstöðu, sýndarskrifstofur, samvinnurými og kaffihúsastemningu. Fyrirtæki, hvort sem er innlend eða erlend, auk stofnana, geta með aðstoð skrifstofusetursins boðið upp á bæði tímabundin og varanleg störf án staðsetningar.

Skrifstofusetur Regus á Ísafirði verður nyrsta starfsstöð sem Regus hefur opnað í heiminum, en nú eru um 4.000 útibú Regus starfandi í 900 borgum í 127 löndum. Fyrir rekur Regus á Íslandi skrifstofusetur í Reykjavík en viðskiptavinir Regus hafa aðgang að öllum starfsstöðvum félagsins hvar sem er í heiminum. Þeir sem eru með starfstöð á Ísafirði hafa einnig aðgang að öðrum skrifstofum Regus, hvort sem er í Reykjavík eða annars staðar í heiminum án aukakostnaðar. Regus stefnir að því að opna á þessu ári fleiri skrifstofusetur og starfsstöðvar á hótelum víða um land, og eru viðræður um það þegar hafnar. 

Erna Karla Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Regus á Íslandi:

„Skrifstofusetur Regus á Ísafirði uppfyllir allar þær kröfur sem gerðar eru til nútímaaðstöðu og um þægindi. Á Vestfjörðum hefur á liðnum árum átt sér stað mikill vöxtur. Reynsla síðustu tveggja ára sýnir okkur að hægt er að búa hvar sem er í heiminum óháð því hvar fólk starfar. Við höfum þegar fengið óskir frá fyrirtækjum sem vilja nýta sér aðstöðu á Ísafirði um lengri eða skemmri tíma og við væntum þess að enn fleiri eigi eftir að nýta sér aðstöðuna.“

Elín Marta Eriksdóttir, meðeigandi Fljót ehf.:

„Það er mikil lyftistöng fyrir Vestfirði að geta boðið upp á fullbúið skrifstofusetur og opna þannig tækifæri fyrir fyrirtæki í heimabyggð sem og önnur fyrirtæki og stofnanir sem bjóða upp á störf án staðsetningar. Þá er ánægjulegt að geta nýtt það glæsilega húsnæði sem gamla Landsbankahúsið er undir starfsemi sem styrkir samfélagið í heild og ýtir undir fjölbreytt atvinnulíf.“

DEILA