Nýr vegur á Suðurfjörðunum styttir vegalengdina frá höfuðborgarsvæðinu til Ísafjarðar um 50 km.

Vegagerðin hefur nú boðið út veginn um Teigsskóg. Útboðskaflinn sem um ræðir er frá Þórisstöðum í Þorskafirði og liggur hann um Teigsskóg að Hallsteinsnesi og þar út í Djúpafjörð.

Þetta er liður í uppbyggingu Vestfjarðavegar um Gufudalssveitina. Í grunninn til er Vegagerðin að þvera þrjá firði; Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð.

Þá verður þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar fljótlega boðin út en í því útboði eru tvær brýr. Í Gufufirði verður 130 metra löng brú en minni brúin í Djúpafirði verður 58 metrar. Þá er eftir stór brú yfir Djúpafjörð, sem verður 210 metra löng stálbrú. Þegar framkvæmdum lýkur verður þetta mikil samgöngubót, þar sem vegfarendur losna við að aka um tvo erfiða hálsa, Hjallaháls og Ódrjúgsháls.

Þegar er búið að bjóða út þverun Þorskafjarðar en þar verður byggð 260 metra brú, auk vegar frá Kinnastöðum að Þórisstöðum og framkvæmdir eru í fullum gangi.

„Framkvæmdum við Gufudalsveginn er lokið en þær hófust árið 2020. Sá vegur er í raun hluti af núverandi Vestfjarðavegi eins og staðan er núna, en hann verður síðar meir héraðsvegur. Í fyrrahaust voru svo boðnar út framkvæmdir vegna Djúpadalsleiðar, sem liggur frá Hallsteinsnesi inn í Djúpadal, sem er í Djúpafirði og eru framkvæmdir hafnar,“ segir Sigurþórs Guðmundssonar, verkefnastjóri á framkvæmdadeild Vegagerðarinnar.


Um er að ræða umfangsmiklar framkvæmdir sem er skipt í sex áfanga. Þá er uppbygging vegar um Dynjandisheiði hluti af þessu verkefni. Þar er búið að byggja 10 kílómetra veg og Vegagerðin er nánast tilbúin í útboð á næsta kafla sem verður um 12 km. Gangi allar áætlanir eftir verður hægt að keyra hringinn um Vestfirði á bundnu slitlagi í lok ársins 2024. Þar með verður kominn nýr vegur á Suðurfjörðunum sem styttir vegalengdina frá höfuðborgarsvæðinu til Ísafjarðar um 50 km.

DEILA