Íþróttamaður ársins 2021 í Strandabyggð

Það var góð stemning í Íþróttamiðstöð á Hólmavíkur á miðvikudag þar sem Hrafnhildur Skúladóttir, íþrótta- og tómstundafulltrúi Strandabyggðar, veitti verðlaun fyrir íþróttamann ársins 2021 í Strandabyggð. Einnig voru veitt sérstök hvatningarverðlaun sem eru hugsuð sem sérstök hvatning til frekari afreka og árangurs í framtíðinni og eru veitt einstaklingi sem sýnir ríkan áhuga á sinni íþróttagrein, er góður félagi og góð fyrirmynd.

Íþróttamaður Strandabyggðar 2021 er Guðmundur Viktor Gústafsson en hann hlýtur þessa viðurkenningu fyrir afrek sín á sviði golfíþróttarinnar á síðasta ári en hann náði þeim árangri að komast í landsliðssæti eldri kylfinga í aldursflokknum 65+ með forgjöf og er hann nú í 3.sæti í þeim aldursflokki . Guðmundur æfir á golfvellinum á Skeljavíkurgrundum með Golfklúbbi Hólmavíkur og er einn af stofnmeðlimum klúbbsins.

Hvatningarverðlaun Strandabyggðar, hlaut Þórey Dögg Ragnarsdóttir skíðakona.  Þórey hefur æft gönguskíðaíþróttina frá barnsaldri, sótt námskeið erlendis og keppt á mótum með góðum árangri. Hún æfir með Skíðafélagi Strandamanna og hefur einnig verið liðtæk við þjálfun og kennslu síðustu ár. 


DEILA