Fjórar umsóknir um stöðu rektors á Hólum

Fréttavefurinn Feykir á Sauðárkróki greinir frá því að frestur til að sækja um stöðu rektors hjá Háskólanum á Hólum hafi runnið út síðast liðinn mánudag.

Umsækjendur eru:
Anna Gréta Ólafsdóttir, fv. skólastjóri
Anna Guðrún Edvardsdóttir, rannsóknastjóri og fv. skólastjóri í Bolungarvík
Hólmfríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri
Ingibjörg Sigurðardóttir, deildarstjóri

„Það er ánægjulegt að sjá svo flotta kandídata sækja um stöðu rektors hjá Háskólanum á Hólum. Nú tekur valnefndin við keflinu og við bíðum spennt eftir niðurstöðu háskólaráðs. Það eina sem er víst er að framtíðin hjá Háskólanum á Hólum er björt og að það verður áfram kona í stöðu rektors,“ segir Edda Matthíasdóttir, sviðsstjóri mannauðs, gæða og rekstrar skólans.

Háskólaráð Háskólans á Hólum hefur skipað valnefnd sem metur hæfi umsækjenda en nefndina skipa Skúli Skúlason, prófessor, formaður nefndarinnar; Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor og aðstoðarrektor vísinda og Sigurður Kristinsson, prófessor.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, skipar háskólarektor til fimm ára frá og með 1. júní 2022, samkvæmt tilnefningu háskólaráðs.

DEILA