Eyjólfur Ármannsson: Bann við handfæraveiðum er mannréttindabrot

Eyjólfu Árannsson, alþm sagði á Alþingi í gær að bann við frjálsum handfæraveiðum væri mannréttindabrot, það sýnidi álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem kom fram árið 2007. Hann sagði einnig að núverandi strandveiðikerfi væri allsendis ófullnægjandi.

Ræða Eyjólfs:

„Undan ströndum Íslands eru ein gjöfulustu fiskimið í heimi. Þessa auðlind hafa Íslendingar nýtt frá því að land byggðist. Íbúar sjávarbyggðanna eiga tilkall til fiskimiðanna undan ströndum landsins. Þar hefur byggð frá landnámi byggst á fiskveiðum og landbúnaði. Takmarkanir stjórnvalda á veiðum íbúa undan ströndum sjávarbyggðanna eru skerðing á búseturétti sjávarbyggðanna. Takmarkanir á atvinnufrelsi þurfa að byggjast á sterkum rökum og ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. Það er meðalhófið. Aflahámark sem takmarkar fiskveiðar á eingöngu að ná til þeirra veiða sem ógna fiskstofnum, ekki til veiða sem ógna þeim ekki. Handfæraveiðar ógna ekki fiskstofnum. Sagt er að leiðin til heljar sé vörðuð góðum áformum. Kvótakerfið, sem komið var á fót til bráðabirgða árið 1984, er slík varða fyrir margar sjávarbyggðir. Aflamark í þorski var þá lækkað í 200.000 tonn til að byggja upp þorskstofninn. Það eru sömu veiðiheimildir og í dag. Árangurinn er enginn. Örfáir útgerðarmenn náðu með tímanum til sín mestum hluta aflamarksins og skeyttu litlu um sjávarbyggðirnar. Kvótakerfið er óbreytt og sjávarbyggðunum heldur áfram að hnigna og íbúum fækkar. Þessi þróun mun halda áfram verði nýtingarréttur sjávarbyggðanna ekki viðurkenndur. Það er viðurkenning á atvinnufrelsi og búseturétti. Bann við frjálsum handfæraveiðum er mannréttindabrot, það sýnir álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem kom fram árið 2007. Í dag byggist núverandi strandveiðikerfi á því og það er bara allsendis ófullnægjandi. Í dag er ekki skilið á milli stórtækra veiða togara og veiða smábáta, jafnvel þótt vitað sé að veiðihæfni handfæra sé afar lág, en samkvæmt tölum Hafrannsóknastofnunar sjálfrar er hún 0,6%, sem þýðir að aðeins sex fiskar nást af hverjum 1.000 fiskum sem komast í tæri við krókana. Mikilvægt er að endurreisa rétt sjávarbyggðanna til að nýta sjávarauðlindina á þann hátt að fjölskyldur geti lifað af. Flokkur fólksins mun á kjörtímabilinu berjast fyrir því að handfæraveiðar verði gefnar frjálsar.“

DEILA