Arnarlax: Tekjur jukust um 125% milli ára

Icelandic Salmon AS birti í dag þriðja uppgjör sitt, eftir skráningu fyrirtækisins á markað. Uppgjörið, sem er fyrir fjórða ársfjórðung 2021, sýnir góða afkomu Arnarlax og annarra dótturfyrirtækja félagsins á Íslandi. Þessi góða afkoma er fyrst og fremst vegna hás afurðaverðs og afburða góðrar uppskeru í laxeldi félagsins á tímabilinu. Alls jukust tekjur félagsins um 125% milli ára og námu þær 36 milljónum evra (um 5 milljarðar íslenskra króna) á ársfjórðungnum. Rekstrarafgangurinn á fjórða ársfjórðungi síðasta árs nam 3,8 milljónum evra (539 milljónir íslenskra króna), eða 0,89 evra (126 kr.) á hvert kíló af seldum laxi, sem er umtalsvert meira en árið áður. Uppskera félagsins nam 4.300 tonnum á tímabilinu sem er 13% aukning miðað við sama ársfjórðung árið áður.

„Við skiluðum verulega bættum líffræðilegum árangri í ræktunarstöðvum okkar á tímabilinu og  það hefur dregið verulega úr laxadauða allt síðasta ár. Þetta sýnir að þær aðgerðir sem við gripum til hafa skilað árangri,“ sagði Björn Hembre, framkvæmdastjóri Icelandic Salmon AS og Arnarlax.

Á síðasta ársfjórðungi síðasta árs var slátrað 4.300 tonnum sem er 13% meira en á sama tíma árinu áður.

Icelandic Salmon gerir ráð fyrir að slátra 16.000 tonnum af eldislaxi á þessu ári.

Icelandic Salmon (ISLAX) er skráð á Euronext Growth markaðinn í norsku kauphöllinni. Fyrirtækið er 100% eigandi Arnarlax ehf., leiðandi eldisfyrirtækis á Íslandi með höfuðstöðvar á Bíldudal. Fyrirtækið með alla þætti virðiskeðjunnar á sinni hendi og getur þannig tryggt gæði framleiðslunnar alla leið.

DEILA