Arctic Fish: stefnir í að afföllin í Dýrafirði verði meiri en 3%

Norwegian Gannet - norska súlan

Í lok janúar varð vart við aukin afföll í kvíum Arctic Fish í Dyrafirði vegna kulda. Var þá talið að þau gætu orðiðð um 3% af 10.000 tonnum af eldisfiski í kvíunum eins og þá kom fram í frétt á Bæjarins besta. Fiskur sem drepst vegna sára sem hann fær vegna kuldans fer ekki til manneldis og er verðlítill. Nú stefnir í að afföllin verði meiri að sögn Daníels Jakobssonar, forstöðumanns viðskiptaþróunar. Hann segir að dregið hafi úr afföllunum síðustu daga en erfitt sé að gera sér grein fyrir hvar þau endi.

Lagt er allt kapp á að slátra fiski áður en kuldinn hefur skaðað fiskinn , en í kvíunum er mikið af fiski sem kominn er í sláturstærð. Næstu tvær vikur verður unnið allan sólarhringinn í sláturhúsinu á Bíldudal og þá fara afköstin upp í 200 tonn á sólarhring. Slátrað verður á fullu út apríl segir Daníel Jakobsson og er stefnt að því að ljúka slátrun upp úr tveimur staðsetningum í Dýrafirði af fjórum. Telur Daníel að þá verði búið að slátra um 2000 tonnum.

Sláturskipið Norwegian Gannet mun koma til landsins og annast slátrunina en síðan fer fiskurinn til Bíldudals þar sem honum verður pakkað og gengið frá honum til útflutnings.

DEILA