Aflaverðmæti í janúar tvöfalt meira en í sama mánuði í fyrra

Heildarafli í janúar var 220 þúsund tonn, þar af var loðnuaflinn rúm 189 þúsund tonn. Þorskaflinn var ríflega 21 þúsund tonn sem er 15% meira en í janúar 2021, en samdráttur var í afla annarra fisktegunda.

Heildarafli á 12 mánaða tímabili, frá febrúar 2021 til janúar 2022, var rúmlega 1,3 milljón tonn og jókst um 26% samanborið við sama tímabil ári fyrr. Helstu breytingar á milli ára felast í loðnuaflanum, en engin loðna veiddist á fyrra tímabilinu.

Afli metinn á föstu verði bendir til þess að aflaverðmæti í janúar 2022 verði tvöfalt meira en í sama mánuði árið 2021. Nokkur óvissa er í útreikningi á verðmæti loðnu, en hér er miðað við meðalverð á fyrri hluta árs 2021.

Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

DEILA