Vöktunarteymi um sóttvarnir í skólastarfi

Mennta- og barnamálaráðherra hefur sett á laggirnar nýtt vöktunarteymi um sóttvarnir í skólastarfi. Tilgangur þess er að stuðla að markvissum viðbrögðum sem best tryggja öryggi barna og ungmenna í skólum, og að þau fái notið lögbundinnar þjónustu menntakerfisins.

Vöktunarteymið er samvinnuverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga, heilbrigðisráðuneytis, Grunns – félags fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennarasambands Íslands, almannavarnadeildar höfuðborgarsvæðisins og Skólameistarafélags Íslands undir forystu ráðherra mennta- og barnamála.

Ráðherra fundar reglulega með hópnum og hafa fjórir fundir farið fram nú þegar. Á vefsíðunni mrn.is/skolastarf er að finna nýjustu upplýsingar um sóttvarnir í skólastarfi, og þar verður svörum við fyrirspurnum miðlað ásamt vikuskýrslum vöktunarteymisins.

Mennta- og barnamálaráðherra mun einnig funda reglulega með stærri samráðshópi fulltrúa skólasamfélagsins og annarra sem vinna að hagsmunamálum og velferð barna líkt og verið hefur frá upphafi faraldursins.

Á fundi þess hóps á föstudag voru meðal annars Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

DEILA