Vesturbyggð: Tesla gefur þrjár hleðslustöðvar

Aðalstræti 1 Patreksfirði, Vatneyrarbúð var reist 1916 og er ytra borð hússins friðlýst.

Tesla hefur gefið sveitarfélaginu Vesturbyggð þrjár 22 kw hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla. Það var samstarfsverkefnið Blámi undir forystu Þorsteins Mássonar sem hafði milligöngu í málinu og fékk Tesla til þátttöku í verkefninu.

Stöðvarnar verða opnar fyrir alla rafmagnsbíla. Vesturbyggð verður eigandi að stöðvunum en staðsetning verður sýnileg öllu Tesla eigendum og öðrum rafbílanotendum í gegnum kortasjá og vefsíður.

Í bréfi Bláma til vesturbyggðar kemur fram að með því að fjölga hleðslustöðvum verður auðveldara fyrir rafbílaeigendur að heimsækja Vestfirði en búast má við fjölgun rafbíla í einkaeigu og bílaleigubílum á næstu mánuðum og árum. Fjölgun á hleðslustöðvum mun líka nýtast íbúum, fyrirtækjum og er í samræmi við markmið umhverfisvottunar Vestfjarða, Earth Check.
Tjaldsvæði, sundlaugar og opinberar byggingar eru sagðir mjög heppilegir staðir fyrir svona stöðvar ásamt veitingastöðum, vinsælum áningarstöðum og gististöðum.
Uppsetningarkostnaður er áætlaður um 100-200 þúsund en það fer eftir aðstæðum á hverjum stað og greiðist af eiganda stöðvarinnar. Kostnaður getur orðið hærri ef leggja þarf í jarðvegsframkvæmdir eða framkvæmdir við heimtaugar til að koma rafmagni að stöðinni.
Tengja þarf stöðina við þriggja fasa rafmagn og hún þarf helst að vera sett upp á vegg. Rafmagnskostnaður greiðist af eiganda stöðvarinnar en honum er frjálst að bjóða einungis viðskiptavinum sínum upp á að nota stöðina.

Vesturbyggð hefur samþykkt að taka við stöðvunum sem staðsettar verða á Aðalstræti 1 Patreksfirði, Dalbraut 1 á Bíldudal og við Byltu á Bíldudal. 

DEILA