Vestfirðir: íbúafjölgun 2021 var 1,3%

Súðavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Íbúum á Vestfjörðum fjölgaði um 1,3% á síðasta ári. Er það nokkuð undir landsmeðaltali sem var 2%.

Fjölgunin var mun meiri á sunnanverðu landinu en annars staðar. Mest var hún á Suðurlandi 3,3% og Suðurnesjum 3,2%. Á Höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi varð íbúafjölgunin 1,9%. Á Norðurlandi eystra fjölgaði um 1,7% og um 1,6% á Austurlandi. Á Vestfjörðum varð fjögunin, sem fyrr segir, 1,3% og aðeins 0,2% á Norðurlandi vestra.

Landsmönnun fjölgaði um 7.459. Fjölgunin á Vestfjörðum varð 91 og voru 7.202 búsettir í fjórðungnum. Hafa íbúar ekki verið fleiri síðustu 4 árin. Í ársbyrjun 2019 voru 7.111 íbúar á Vestfjörðum, síðan 7.099 árið eftir, 7.111 í fyrra 2021 og loks núna 7.202.

Mest fjölgun í Súðavík og Vesturbyggð

Á Vestfjörðum fjölgaði íbúum í þremur sveitarfélögum en fækkaði í fimm. mest varð fjölgunin hlutfalllega í Súðvík eða 7% og svo í Vesturbyggð, en þar fjölgaði um 6,2%. Þriðja sveitarfélagið sem fjölgaði í var Ísafjarðarbær um 1,2%. Mest fækkun var hins vegar í Tálknafjarðarhreppi 4,9%. Næstmest fækkun varð í Strandabyggð 2,8%.

DEILA