Vegaframkvæmdir á fullri ferð

Halla Signý missir þingsætið samkvæmt könnuninni.

Í vikunni birti Vegagerðin samantekt á framkvæmdum á vegum landsins á árinu 2021. Þar kom fram að viðhald og framkvæmdir á vegakerfinu námu um 34 milljarða króna á árinu 2021. Inn í þessum tölum eru ekki framkvæmdir við hafnir og sjóvarnargarða. Ég verð að segja að það er virkilega ánægjulegt að fylgjast með þessari framkvæmdargleði og taka þátt í henni. Mörg mikilvæg verkefni bíða eftir að komast af stað.

Fókus á Vestfirði

Sunnanverðir Vestfirðir voru í þungamiðju aðgerða árið 2021. Unnið var áfram með framkvæmdir á Dynjandisheiði og Gufudalssveit með endurbyggingu og breikkun vega, þá eru hafnar langþráðar framkvæmdir við þverun Þorskafjarðar. Framkvæmdir voru víðar, settar voru nýjar brýr í Bjarnardal í Önundarfirði og vegurinn endurbættur. Þá var sett ný brú á Bíldudalsvegi um Botnsá í Tálknafirði. Álftafjörður fékk líka sitt, þar sem ný brú var sett við Hattardal og umferðaöryggi bætt. Mikið munar um þennan tæplega 3ja km kafla. Þá má ekki gleyma að telja upp þegar tímamótasamningar náðust í lok árs við lendeigendur í Teigskógi. Nú er fram undan að bjóða út þann vegakafla á allra næstu vikum. Það má með sanni segja að með þessum samningum sé settur lokapunktur á langan og íþyngjandi kafla sem hefur tekið á íbúa fjórðungsins.

Það sem af er þessari öld hefur gengið hægt að ná aðalvegakerfi Vestfjarða til núverandi kynslóða. Þjóðvegurinn frá Bolungarvík til Reykjavíkur um Ísafjarðardjúp náði loksins að vera allur bundin slitlagi árið 2015. Meginuppistaðan í stofnvegakerfi á sunnanverðum Vestfjörðum hefur að stærstum hluta verið fyrstu kynslóða vegur en nú loksins á síðasta kjörtímabili sáum við stórstigar breytingar.

Vegagerð eykur samkeppnishæfni samfélaga

Það er ekki ofsögum sagt að bætt samgöngumannvirki innan fjórðungsins og á milli fjórðunga séu mikilvæg í nútíma samfélagi. Nú þegar vorið kemur og kófið fer að léttast megum við búast við að fólk sé frekar á faraldsfæti. Ferðamenn eiga eftir að skila sér á Vestfirði sem aldrei fyrr. Það má með sanni segja að við séum heldur betur undir það búin nú en við vorum fyrir tveimur árum.

Öryggi vegfaranda hefur stórbatnað, en verkefnið er að halda áfram að tryggja öryggi á vegum landsins. Það er gert með samverkandi þáttum líkt og uppbyggingu vegakerfis, vetrarþjónustu og ofanflóðaeftirliti. Nú skal áfram haldið, áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir ,

þingmaður framsóknar og nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd.

DEILA