Uppskrift vikunnar – Toscana súpa

Í ljósi þess að nú rekur hverja lægðina á eftir annarri til okkar finnst mér vel við hæfi að vera með uppskrift af matarmikilli og bragðsterkri súpu sem yljar okkur í veðurhaminum.

Það er líka alltaf stór kostur að  mínu mati að súpur eru yfirleitt jafngóðar eða jafnvel betri þegar þær eru hitaðar upp. Þessi uppskrift er fyrir um það bil sex manns.

Innihald:

150 gr beikon, smátt skorið

1 laukur, smátt saxaður

4 hvítlauksrif, smátt söxuð

350-400 gr góðar pylsur, t.d. grískar pylsur frá Kjarnafæði eða aðrar bragðmiklar pylsur, smátt skornar.

500 gr kartöflur, skornar í tvennt og svo í sneiðar

1 askja (ca. 15-18 stk) kirsjuberjatómatar, skornir í tvennt

1 líter kjúklingasoð

3 dl rjómi

3-4 góðar lúkur af fersku spínati

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Smávegis af fersku basil til að strá yfir að lokum

Aðferð:

Byrjið á að hita stóran pott við meðalhita. Steikið beikonið þar til það er vel stökkt og færið þá upp á eldhúspappír. Steikið laukinn og hvítlaukinn í beikonfitunni (ef ykkur þykir of mikil fita af beikoninu hellið þá aðeins af henni). Bætið pylsunum út í og steikið þar til þær brúnast aðeins. Bætið þá kartöflusneiðunum og tómötunum út á og steikið aðeins áfram. Hellið soðinu og rjómanum yfir og hleypið suðunni upp. Smakkið til með salti og pipar og e.t.v kjúklingakrafti ef ykkur finnst þurfa. Sjóðið í um 10 mínútur eða þar til kartöflurnar hafa eldast í gegn. Bætið þá spínatinu út í og látið það sjóða með í um 2-3 mínútur. Berið fram strax með fersku basil og stráið stökku beikoninu yfir hverja skál

Verði ykkur að góðu og vonum að veðrið fari að skána með hækkandi sól.

Halla Lúthersdóttir.

DEILA