Teigskógur í útboð innan skamms

Horft af Hjallahálsi að Gröf. Mynd: Vegagerðin.

Vegagerðin mun fljótlega bjóða út framkvæmdir við nýjan veg frá Þórisstöðum út Þorskafjörðinn og að Hallsteinsnesi, en á þeirri leið er hin umdeildi Teigskógur. Þetta staðfestir Sigurþór Guðmundsson deildarstjóri hjá Vegagerðinni í samtali við Bæjarins besta.

Útboðsgögn eru í yfirlestri þessa dagana. Ætlunin er að hefja framkvæmdir í sumar. Boðið verður út á EES svæðinu og verkið verður unnið á tveimur árum. Sigurþór segir að líklega verði vegagerðin frá Hallsteinsnesi og yfir á Melanes í tveimur útboðum en það skýrist fljótlega.

Þá er unnið að gerð útboðsgagna fyrir næsta áfanga á Dynjandisheiði og er það verk langt komið. Það verður 12 km kafli frá Bíldudalsafleggjaranum í átt að Dynjanda. Veglína hefur verið ákveðin og sótt hefur verið um framkvæmdaleyfi til sveitarfélaganna Vesturbyggð og Ísafjarðarbæjar. Þá verða 7 km eftir af því að gera nýjan veg yfir Dynjandisheiði. Ekki liggur fyrir hvort hægt verður að bjóða þennan áfanga út í ár þar sem fjárveitingar til verksins eru mikið til á árunum 2023 og 2024 og aðeins 800 m.kr. í ár samkvæmt Samgönguáætlun. Þó ber þess að geta að Vegagerðin kynnti áfangann sem áform um útboð á árinu á nýafstöðnu útboðsþingi Samtaka iðnaðarins.

DEILA