Tálknafjörður: engar sérreglur um úthlutun byggðakvóta

Tálknafjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Sveitarstjórn Tálknafjarðar ræddi reglur um úthlutun byggðakvóta fyrir yfirstandandi ár á fundi sínum í síðustu viku.

Hlutur Tálknafjarðar í úthlutuninni nú er 6,49% eða 300 þorskígildistonn.

Bókað var að Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps telur „að ekki sé möguleiki á að koma hagsmunum samfélagsins að í úthlutun byggðakvóta með sérreglum þar sem ráðherra hefur ítrekað gengið í berhögg við óskir Tálknfirðinga um ákvæði í slíkum reglum. Því telur sveitarstjórn fullreynt að leggja fram sérreglur um úthlutun byggðakvóta á Tálknafirði
og gerir það ekki fyrir fiskveiðiárið 2021/2022.“

Ekki er getið um í bókuninni hvaða sérreglur það eru sem sveitarstjórnin hefur viljað setja en ráðherra hafnaði.

En geta má þess að fyrir þremur árum vildi sveitarstjórnin ráðstafa byggðakvótanum á þann veg að ekki yrði um vinnsluskyldu að ræða á aflanum enn í staðinn myndu útgerðarmennn greiða 20 kr/kg til sveitarfélagsins sem  færi í sérstakan sjóð, sem hugsaður væri til uppbyggingar dvalarheimilis á Tálknafirði. Með þessu taldi sveitarstjórn að byggðakvótinn kæmi að notum fyrir alla íbúa, þ.e.a.s. samfélagið í heild.

Í frekari rökstuðningi fyrir þessari ráðstöfun segir:

„Sveitarstjórn telur að með því að byggja upp dvalarheimili á staðnum sé stuðlað að því að fólk sem ekki getur lengur haldið heimili þurfi ekki að flytja burt úr sveitarfélaginu, annaðhvort til Reykjavíkur eða á sjúkrahúsið á Patreksfirði, sem er eina úrræðið á svæðinu. Ennfremur er augljóst að með þessu skapast fjölmörg störf sem gæti þýtt fjölgun í sveitarfélaginu. Með þessu telur sveitarstjórn að byggðakvótinn komi að notum fyrir alla íbúa, þ.e.a.s. samfélagið í heild.“

DEILA